Utanríkisráðherra hvetur til friðsamlegrar lausnar í Úkraínu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hvatti í ávarpi sínu á ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) stjórnvöld í Úkraínu til vinna að lausn pólitískra deilumála í landinu, virða tjáningafrelsi og réttindi fólks til friðsamlegra mótmæla.
„Atburðirnir hér í Úkraínu síðustu daga minna okkur á mikilvægi þess að standa vörð um grundvallarmannréttindi. Ástandið hér fer ekki framhjá neinum og stjórnvöld þurfa að standa við gefin loforð um að stöðva allt ofbeldi gagnvart mótmælendum. Það voru megin skilaboð mín og margra annarra til utanríkisráðherra Úkraínu. Það leikur enginn vafi á því að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur enn mikið verk að vinna“ sagði Gunnar Bragi.
Ráðherra tekur þátt í árlegum fundi utanríkisráðherra ÖSE sem hófst í Kænugarði í Úkraínu í dag. Alls sækja fulltrúar 57 þátttökuríkja ÖSE fundinn og er megintilgangur hans að ræða með hvaða hætti megi tryggja betur framkvæmd skuldbindinga þátttökuríkja á sviði mannréttinda, afvopnunarmála og efnahags- og umhverfismála. Fyrir fundinum liggja m.a. ákvarðanir um að treysta réttindi Rómafólks, standa vörð um trúfrelsi og tryggja betur öryggi fjölmiðlafólks gagnvart ofsóknum stjórnvalda. Úkraína tók við formennsku ÖSE í byrjun árs og tekur Sviss við formennsku ÖSE í byrjun árs 2014.
Gunnar Bragi átti einnig fundi með utanríkisráðherrum Kasakstan, Tyrklands og Makedóníu, fyrrum lýðveldi Júgóslaviu, þar sem rætt var um efnahagsmál og viðskipti, stjórnmálasamskipti og stöðuna í alþjóðamálum. Á fundinum með Tyrklandi ræddu ráðherrarnir einnig um tækifæri til aukins samstarfs í nýtingu jarðhita og þróun ferðaþjónustu.
Ræða utanríkisráðherra á ráðherrafundi ÖSE
Nánari upplýsingar um utanríkisráðherrafund ÖSE eru hér (http://www.osce.org/)