Hoppa yfir valmynd
13. desember 2013 Utanríkisráðuneytið

Ísland gerir 10 nýja loftferðasamninga

Fulltrúar Gambíu og Íslands fagna nýjum loftferðasamningi

Verulegur árangur náðist í opnun nýrra markaða fyrir íslenska flugrekendur á ráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um loftferðasamninga sem lauk í Durban, Suður-Afríku, í dag, en markmið hennar er að skapa aðildarríkjum stofnunarinnar vettvang til viðræðna um gerð og framkvæmd tvíhliða loftferðasamninga.

Samninganefnd Íslands gerði tíu nýja loftferðasamninga á þessari ráðstefnu og er það besti árangur sem náðst hefur að því er varðar fjölda nýrra samninga fram til þessa.

Nýju samningarnir eru við Afganistan, Bangladess, Botsvana, Gambíu, Grænhöfðaeyjar, Holland vegna Kúrasaó, Kenía, Malí, Tansaníu og Tógó, en jafnframt var undirrituð viljayfirlýsing um gerð samnings við Kambódíu. Auk þessa fundaði sendinefnd Íslands  um framkvæmd gildandi samnings við Kanada og sammæltist óformlega með Nígeríu um að stefna að gerð samnings á næstu mánuðum.

Stöðugt vaxandi umsvif íslenskra flugrekenda hafa kallað á aukna áherslu á gerð tvíhliða loftferðasamninga. Misjafnt er um hversu víðtæk réttindi tekst að semja í hverju tilviki en auk gagnkvæmra heimilda til farþega- og farmflugs milli samningsríkja tekst oftast að semja um flug til og frá þriðju ríkjum og viðkomandi samningsríki. Fjöldi samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki er með nýjum samningunum um 80 talsins.

Íslensku sendinefndina skipuðu Kristján Andri Stefánsson sendiherra, sem jafnframt var formaður, Gunnar Örn Indriðason lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu og Jóhanna Helga Halldórsdóttir deildarstjóri lögfræðideildar Samgöngustofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta