Fjárveiting samþykkt vegna Kolgrafafjarðar
Ríkisstjórnin samþykkti nú í vikunni tillögu ráðuneytisstjórahóps um fjárheimild upp að 35 m kr. vegna aðgerða í Kolgrafafirði. Fjárheimildin mun nýtast til frekari tilrauna til að smala síld út fyrir brú, en fyrirhugað er að gera nýja tilraun til þess þegar góðar aðstæður gefast, sem vonast er til að verði fljótlega eftir áramót. Inni í heimildinni er einnig að hluta kostnaður sem þegar er fallinn til, s.s. vegna síldarsmölunar í lok nóvember, tilraunar með fælingu með hvalahljóðum og úttekta á fyrirbyggjandi aðgerðum og viðbrögðum ef til annars síldardauða kæmi.
Mælingar sýna að um 60.000 tonn af síld eru nú innan brúar í firðinum. Til samanburðar voru yfir 200.000 tonn af síld innan brúar þegar síldardauðinn varð síðastliðinn vetur. Lítil hætta er talin á að stórar síldartorfur komi inn í Kolgrafafjörð nú í vetur, í viðbót við þá síld sem þar er fyrir. Mælingar hafa sýnt ágæta súrefnismettun í firðinum, en nettengd bauja gefur nú upplýsingar um súrefnisstöðuna á rauntíma, þannig að hægt er að sjá ef ástandið fer að versna. Með hliðsjón af ofangreindu er hætta á stórfelldum síldardauða í vetur ekki vera talin mikil, þótt ekki sé hægt að útiloka þann möguleika. Mikilvægt er hins vegar talið að nýta tímann í vetur til að afla frekari upplýsinga um samspil síldarmagns, veðurfars og súrefnismettunar í firðinum og til að reyna aðferðir til að koma í veg fyrir síldardauða, s.s. með því að smala síldinni út. Síldin í Kolgrafafirði verður því vöktuð grannt í vetur og áfram verður leitað bestu og hagkvæmustu leiða til að koma í veg fyrir síldardauða í framtíðinni á grunni þeirrar þekkingar sem hefur fengist.