Drög að reglugerð um áhöfn í almenningsflugi til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um áhöfn í almenningsflugi. Unnt er að gera athugasemdir við drögin og skulu þær berast ráðuneytinu eigi síðar en 10. janúar næstkomandi á netfangið [email protected].
Tilgangur reglugerðinnar er innleiðing reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1178/2011 frá 3. nóvember 2011 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða áhöfn í almenningsflugi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, og reglugerðar (ESB) nr. 290/2012 um breytingar á reglugerð (ESB) nr. 1178/2011.
Reglugerð (ESB) nr. 1178/2008 er fyrsta löggjöf Evrópusambandsins sem fjallar með beinum hætti um kröfur til útgáfu og viðhalds skírteina og vottorða áhafnarliða í almenningsflugi. Um þessi atriði gilda nú eftirfarandi reglugerðir: Reglugerð um skírteini nr. 400/2008, reglugerð um skírteini flugliða á flugvél nr. 401/2008 reglugerð um skírteini flugliða á þyrlu nr. 402/2008 og reglugerð um heilbrigðiskröfur flugliða nr. 403/2008. Einnig reglugerð um flugskóla nr. 692/1999.
Framangreindar innlendar reglugerðir fólu í sér innleiðingu á svokölluðum JAR-FCL kröfum að undanskilinni reglugerð nr. 692/1999 sem eru viðbótarkröfur sem gilda á Íslandi. JAR-FCL kröfurnar voru settar á vegum Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA). JAA voru samtök flugmálayfirvalda í mörgum Evrópuríkjum m.a. Íslandi. JAR-FCL kröfurnar eru samræmdar milli landa og byggjast á gagnkvæmri viðurkenningu réttinda og þjálfunar milli aðildarríkja. Flugöryggissamtök Evrópu voru lögð niður árið 2009 og tók Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA), sem er stofnun á vegum ESB við hlutverki þeirra. Setning reglugerðar (ESB) nr. 1178/2011 er í raun hluti af því ferli. Reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 byggist að mestu á JAR-FCL kröfunum sem innleiddar voru með framangreindum reglugerðum. Gildissviðið er svipað, og tæknilegar kröfur eru í helstu atriðum þær sömu.
Reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 er eins og heiti hennar gefur til kynna sett til að útfæra tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða áhöfn í almenningsflugi skv. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. Eins og segir hér að framan er ekki um grundvallarbreytingar að ræða frá gildandi reglum. Í reglugerðinni og viðaukum við hana er mælt fyrir um öll helstu skilyrði sem gerð eru til öflunar og viðhalds réttinda flugverja í almenningsflugi. Undir þetta falla m.a. kröfur um bóklega og verklega þjálfun ásamt kröfum um heilbrigði og aldur. Einnig er í reglugerðinni og viðaukum hennar að finna reglur um starfsemi flugskóla (e. training organisation). Þær reglur lúta m.a. að skipulagi, fjárhag og skjölun. Undir reglugerðina fellur einnig starfsemi fluglæknasetra og fluglækna.
Með reglugerð (ESB) nr. 290/2012, sem einnig er innleidd með reglugerð þessari, er bætt við fleiri viðaukum (V-VII) við reglugerð (ESB) nr. 1178/2011:
Viðauki V fjallar um þjálfun öryggis- og þjónustuliða (e. Cabin Crew).
Viðauki VI fjallar um kröfur til starfsemi flugmálayfirvalda.
Viðauki VII fjallar um kröfur til starfsemi leyfisskyldra fyrirtækja.