Aðgerðaáætlun um stafrænar landupplýsingar staðfest
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur staðfest aðgerðaáætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland. Í aðgerðaáætluninni er meðal annars fjallað um löggjöf á sviði landupplýsinga og farið yfir stöðu landupplýsinga hér á landi.
Í áætluninni er lagt mat á stöðu landupplýsinga og sett fram áætlun um aðgerðir til að byggja upp grunngerð landupplýsinga. Gert er ráð fyrir að mótuð verði heildarstefna og skipulag á svið landupplýsinga sem lögð verði fram sem þingályktun.
Þá er gert ráð fyrir að settir verði á fót vinnuhópar fyrir hvert þeirra 34 þema (efnisflokka) stafrænna landupplýsinga. Hver vinnuhópur hafi það hlutverk að gera tillögu að samræmdu verklagi og verkaskiptingu milli stjórnvalda og eftir atvikum lagabreytingum sem tryggi að til verði heildstætt gagnasett undir hverju þema.
Þá verður kannað hvort unnt sé að færa til verkefni og/eða sameina verkefni í stjórnsýslunni á sviði landupplýsinga. Um leið verður stutt við hlutverk Landmælinga Íslands við framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar þannig að opinberar landupplýsingar stjórnvalda verði aðgengilegar sem fyrst og með samræmdari hætti en nú er. Að lokum er gert ráð fyrir að opinberar landupplýsingar um Ísland verði gjaldfrjálsar og að menntun á sviði landupplýsinga verði efld.
Aðgerðaáætlunin var unnin af samræmingarnefnd um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem umhverfisráðherra skipaði í nóvember 2011.
Notkun landupplýsinga eykst stöðugt og eru þær notaðar í margvíslegum tilgangi. Með tilkomu nýrrar tækni eru sífellt gerðar meiri kröfur um að geta nálgast og notað landupplýsingar. Þær þurfa að vera aðgengilegar án hindrana og uppfylla þarfir samfélagsins á hverjum tíma varðandi gæði og nákvæmni. Uppbygging á grunngerð landupplýsinga er nauðsynleg til þess að tryggja örugga samþættingu og aðgengi að landupplýsingum þegar þeirra er þörf.