Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2014 Matvælaráðuneytið

Íslandsstofa heldur uppi merki „Film in Iceland“ verkefnisins

Ragnheiður Elín og Jón Ásbergsson
Ragnheiður Elín og Jón Ásbergsson

Í gær undirrituðu Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu samning um að Íslandsstofa myndi áfram annast umsjón verkefnisins Film in Iceland í samræmi við lög um endurgreiðslu til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar frá árinu 2001. Samningurinn gildir til  þriggja ára eða út gildistíma laganna.

Íslandsstofa og forverar hennar, hafa haft umsjón með Film in Iceland verkefninu allt frá samþykkt laganna árið 2001. Hlutverk Íslandsstofu hefur verið að kynna lög um 20% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði fyrir erlendum kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendum og jafnframt að kynna Ísland sem ákjósanlegan tökustað.

Ísland hefur verið vinsæll tökustaður fyrir bæði kvikmyndir og sjónvarpsþætti undanfarin ár. Má í því sambandi meðal annars nefna þættina Game of Thrones, og kvikmyndir á borð við The Secret Life of Walter Mitty og nú síðast Interstellar. Þessi stóru verkefni hafa skilað miklu fyrir íslenskt þjóðarbú enda getur fjöldi starfa í kringum stór kvikmyndaverkefni skipt hundruðum. Seldar eru þúsundir gistinátta á hótelum, tugir bílaleigubíla eru í útleigu auk annarrar þjónustu af ýmsum toga. Þá hefur tekist gott samstarf milli Íslandsstofu og hinna erlendu framleiðenda um kynningu á Íslandi í aðdraganda frumsýninga á þeim kvikmyndum sem teknar hafa verið hér á landi, sem kemur ferðaþjónustunni mjög til góða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta