Samstarf Íslands og Finnlands í brennidepli
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, ræddu samskipti Íslands og Finnlands á fundi í Helsinki í dag.
Ráðherrarnir ræddu þátttöku Finnlands og Svíþjóðar í loftrýmiseftirliti á Íslandi í næsta mánuði sem leitt verður af norska flughernum. Gunnar Bragi segir að sögulegt skref verði stigið í norrænu samstarfi með þátttöku ríkjanna í eftirlitinu og fagnar hann auknu samstarfi íslenskra og finnskra stjórnvalda á sviði öryggismála.
"Utanríkisstefna beggja ríkja byggist á því að nýjum áskorunum í öryggismálum verði best mætt með því að efla viðbragðsgetu með virku milliríkjasamstarfi " segir Gunnar Bragi.
Hann segir Finna búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á eftirliti og viðbrögðum við erfiðar aðstæður á norðurslóðum. Þeir séu reiðubúnir að miðla henni til Íslands og vilja jafnframt læra af reynslu okkar.
"Það eru gagnkvæmir hagsmunir Finnlands, Íslands og annarra ríkja sem munu taka þátt í eftirliti og æfingum í næsta mánuði að styrkja þessi tengsl í ljósi þeirra breytinga sem nú eiga sér stað á norðurslóðum" segir Gunnar Bragi.
Á fundi ráðherranna var fjallað um samstarf ríkjanna á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, Norðurskautsráðsins og í öðru svæðasamstarfi í Norður-Evrópu. Samskipti ríkjanna í viðskiptamálum og menningarmálum voru til umfjöllunar og hvernig þau geta lært hvort af öðru við hagsmunagæslu, viðskiptaþjónustu og borgaraþjónustu á alþjóðavísu. Þá ræddu ráðherrarnir málefni Evrópusambandsins, grannríkjasamstarf þess og þróun mála í Mið-Austurlöndum.
Fyrr í dag heimsótti Gunnar Bragi ísbrjótinn Urho þar sem hann fékk kynningu á starfsemi Arctia Shipping sem starfrækir ísbrjóta og fjölnotaskip víðsvegar um heiminn. Síðdegis heimsótti hann norrænar stofnanir og kynnti sér starfsemi Norræna fjárfestingarbankans, Norræna þróunarsjóðsins og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins. Á morgun mun ráðherrann eiga fund með finnsk-íslenska viðskiptaráðinu.