Meirihluti sveitarfélaga hefur skilað nýjum samþykktum
Innanríkisráðuneytið hefur nú um áramótin yfirfarið, staðfest og birt 49 af þeim 52 samþykktum sem það fékk sendar árið 2013. Sveitarfélögin eru 74 og því eiga allmörg sveitarfélög enn eftir að fá staðfesta nýja samþykkt. Meðal þeirra eru flest fámennustu sveitarfélögin en líka nokkur fjölmenn og öflug sveitarfélög.
Samkvæmt ákvæðum 9. gr. sveitarstjórnarlaga sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 skulu sveitarfélög setja sér samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins sem skal senda ráðuneytinu til staðfestingar og birtingar í Stjórnartíðindum. Með lögunum var einnig samþykkt bráðabirgðaákvæði sem veitti sveitarfélögum frest til 30. júní 2013 til að vinna nýja samþykkt en samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar greinar gildir fyrirmynd að samþykkt sem ráðuneytið birti í ársbyrjun 2013 sem samþykkt fyrir sveitarfélög þar til þau hafa sett sér nýja samþykkt.
Ráðuneytið hvetur sveitarfélög sem enn hafa ekki samþykkt nýjar samþykktir að gera það sem allra fyrst.