Gripið verði til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun
Ákveðið hefur verið að hefja vinnu við breytingar á Evrópulöggjöf til að taka á þeim vanda sem skapast hefur vegna mikillar plastpokanotkunar í álfunni. Breytingarnar, sem falla undir EES-samninginn og koma því til framkvæmdar hér á landi, miða að því að Evrópuþjóðir grípi til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun í hverju landi fyrir sig. Ríki geta valið mismunandi leiðir að þessu markmiði, svo sem að leggja á gjöld vegna notkunarinnar, að setja sérstök landsmarkmið um samdrátt í plastpokanotkun eða í einhverjum tilfellum bann.
Léttir plastpokar eru iðulega notaðir einu sinni en geta dagað uppi í náttúrunni og umhverfinu í hundruð ára, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðleg, ekki síst fyrir lífríki hafsins. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.
Þegar hafa nokkur ríki Evrópu náð umtalsverðum árangri í að draga úr plastpokanotkun og er talið að ef önnur ríki færu að ráði þeirra væri hægt að draga úr heildarnotkun plastpoka í ríkjum Evrópusambandsins um allt að 80%.
Gert er ráð fyrir að breytingarnar muni lúta að tilskipun Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang, sem Ísland hefur innleitt vegna EES-samningsins. Þannig muni ríkjum til að byrja með verða skylt að grípa til aðgerða í því skyni að draga úr notkun á plastpokum sem eru þynnri en 50 míkron. Slíkir pokar eru sjaldnar endurnýttir en aðrir plastpokar og enda því iðulega fljótt sem úrgangur. Slíkar aðgerðir geta falið í sér hagræn stjórntæki, svo sem gjöld, opinber markmið um samdrátt í notkun plastpoka og takmarkanir á markaðssetningu plastpoka. Vinnan við breytingarnar er sett af stað í kjölfar umfangsmikils samráðs sem haft var við almenning um málið en í því kom fram ríkur vilji til að gripið yrði til aðgerða til að stemma stigu við plastpokavandanum.
Í Landsáætlun um úrgang 2013 – 2024, sem umhverfis- og auðlindaráðherra gaf út í fyrra, er gert ráð fyrir að gripið verði til aðgerða til þess að draga úr notkun á plastpokum hér á landi.