Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Ekkert er  -  fyrr en samfélagsmiðlarnir hafa fjallað um það

Kristín A. Árnadóttir í Helsinki
Kristín A. Árnadóttir

Þetta er haft eftir Erkki Tuomioja utanríkisráðherra Finnlands. Og þá er svo mikið víst að Gunnar Bragi kom til Finnlands og gerði margt í þeirri ferð því samfélagsmiðlarnir auk þeirra hefðbundnu sýndu mikinn áhuga á Íslandi þá daga sem ráðherrann var hér í Helsinki í vikunni.

Ekkert okkar hafði reyndar áttað sig almennilega á því þegar ákveðið var að ferðast frá Íslandi á síðasta degi jóla – til að nota tímann sem best – að sá dagur er heilagur frídagur í Finnlandi og allir heima með fjölskyldum sínum. Þrettándinn, 6. janúar, er  aðfangadagur jóla samkvæmt gregorískum sið og lögbundinn frídagur í Finnlandi. Það eimir enn eftir af sterkum rússneskum menningaráhrifum hér í Finnlandi, allt er lokað, stofnanir, verslanir og veitingastaðir, og varla sála á ferli ef frá eru taldir rússneskir ferðamenn.

En dagurinn nýttist, ekki augnablik fór til spillis eins og sést á þessari mynd af þreyttum ferðalöngum í hótelafgreiðslu þar sem hægt gekk; allir að vinna á símann sinn en það eru auk Gunnars Braga þeir Stefán Haukur og Hermann Örn sem voru með í för. Og undirrituð fóðraði ráðherrann á ESB-ostum svo hann leið ekki skort né kvartaði, hvorki yfir aðbúnaði né óhóflegri vinnudagskrá næstu tvo dagana þar sem hann hitti fólk og sótti fundi nánast frá morgni til miðnættis. En það er önnur saga.

Stefán Haukur, Hermann og Gunnar Bragi

Mér þótti tilvitunin í Erkki Tuomioja, þessi um að ekkert hafi gerst fyrr en samfélagsmiðlar hafa sagt frá því, tímanna tákn og nefndi það við einn af starfsmönnum hans. En sá stundi þungan og spurði hversu mikill sannleikur væri í því fólginn en viðurkenndi að ráðherrann, sá gamli refur í pólitík, hefði alltaf skynjað samtímann, þarfir hans og kröfur.

Í hugum Finna er Ísland öðruvísi, áhugavert og fallegt land eins og fram kemur í nýlegri könnun um hvernig Finnar skynji Ísland og íslenskar vörur. Könnunin sýnir jafnframt að lendur má plægja og margir áforma Íslandsheimsóknir í fyrsta sinn. Beint flug milli Íslands og Finnlands, sem Icelandair áformar 9 sinnum í viku í sumar, mun greiða götuna.

Þótt bæði ríkin séu hluti af löngu samstarfi Norðurlandaþjóða eru þau jaðarríki og tilhneiging er til þess að allt hverfist um miðjuna. Lengst af hefur því verið heldur langt á milli Íslands og Finnlands. En það er ört að breytast. Mikil tækifæri eru í viðskiptum við Finnland eins og fulltrúar Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins greindu utanríkisráðherra frá á fundi hér í sendiráðinu í fyrradag. Einnig vegur þungt sá  ásetningur yfirvalda að efla samvinnu á hverfulum tímum líkt og sagði í yfirskrift sameiginlegrar greinar ráðherranna sem birtist í íslenskum og finnskum dagblöðum á þriðjudaginn. Hún er tímanna tákn ekki síður en nýjar leiðir í almennri samræðu og fjölmiðlun.

Kristín A. Árnadóttir er sendiherra í Helsinki

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta