Ferðagleði og ráð í tíma tekin
Íslendingar eru ferðaglaðir og á fáum stöðum í heiminum, utan landsteinana, má finna fleiri Íslendinga á vappi en í Lundúnum. Við í sendiráðinu verðum lítið vör við ferðamenn almennt, nema hvað við heyrum okkar ástkæra ylhýra í strætó, í túbunni eða á götum úti, sérstaklega nálægt góðum verslunarstöðum. Sem betur fer hafa óhöpp verið tiltölulega fá og nær óþekkt að ég hafi þurft að hafa afskipti af fólki sem hefur lent í öruggum höndum breskrar lögreglu.
Helsti snertiflöturinn í samskipum sendiráðsins við ferðamenn hefur með vegabréf að gera og þá sérstaklega týnd vegabréf. Ef ferðinni er heitið heim, er oftast einfalt að finna lausnir á vandanum – stundum nægir símtal, ef ekki er neyðarvegabréf útbúið í hasti með ljósmynd af viðkomandi þar sem öll merki um stress og tímaþröng sjást greinilega. Ég las fyrir margt löngu síðan að þegar maður er farinn að líkjast myndinni í vegabréfinu, er kominn tími til að halda heim. Hef séð nokkkur slík dæmi.
Það gerist reglulega að þegar ég er rétt sestur við sunnudagssteikina eða fótboltaleikinn í sjónvarpinu að síminn hringir og upplýst er um landa í nauðum, vegabréfið glatað og stutt í flug. Þegar ég tala við íslenska ferðamenn í þessari stöðu, ráðlegg ég þeim alltaf að rekja spor sín afturábak eina ferðina enn því fyrstu leitir geta verið árangurslitlar. Reynslan hefur sýnt að tilhugsunin um týnt vegabréf stressar og hefur áhrif á sjónina við leitina. Samt er það svo að í langflestum tilvikum er vegabréfið er hreinlega glatað og þá er ekkert annað í stöðunni en að ganga í málið og afgreiða það. Sendiráðið er líka ríkt af hjálparhellum og hefur í mörg ár getað reitt sig á reynslu Angie hjá Icelandair við að koma fólki heilu að höldnu um borð í flugvél heim. Pete hjá WOW hefur líka staðið vaktina með okkur.
Fleira kemur þó til í vegabréfaraunum Íslendinga en glötuð vegabréf. Krafa margra ríkja um tiltekinn gildistíma vegabréfa kemur fólki oft á óvart sem lendir í vandræðum við innritun í tengiflug frá Bretlandi. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eru með reglur um gildistíma og verða ferðamenn að vera með vegabréf sem gildir í tiltekinn tíma, oft sex mánuði eftir að ferðinni lýkur. Ef þessu er ábótavant, neitar flugfélagið að hleypa viðkomandi um borð. Það er skiljanlegt að fólk líti á gildistímann heima í stofu og hugsi ekki lengra – vegabréfið er í gildi og ferðin eflaust ævintýri frá fyrsta degi. Því miður vill ævintýrið í svona tilvikum byrja í sendiráðinu þegar hringt er af Heathrow eða Gatwick og óskað eftir aðstoð. Þá verður ferðamaðurinn að mæta í sendiráðið og fá framlengingu svo halda megi áfram á áfangastað. Þetta er einföld aðgerð og fljótleg en getur verið kostnaðarsöm. Fólk missir af tengiflugi og þarf í sumum tilvikum að fá sér hótel. Þúsund krónur hér og þúsund krónur þar – og fyrr en varir, er fjárhæðin orðin veruleg.
Útilokað er að vænta þess að vegabréf hætti að týnast en alltaf má skerpa á áherslum um að gæta þeirra vel. Gildistímann má líka laga hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli þannig að stundum er hægt að bjarga málum áður en í þrot eru komin. Góða ferð.
Axel Nikulásson sendiráðunautur í London