Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Um æðardún og hvalkjöt á Japansmarkaði

Hannes Heimisson
Hannes Heimisson

Það kemur manni oft skemmtilega á óvart að heyra hvað Japanir virðast almennt vel upplýstir um Ísland og íslensk málefni. Þeir þekkja landafræðina vel, eldgos og náttúruhamfarir og muna vel eftir Vigdísi forseta og Friðriki Þór. Á hverju ári koma japanskir ferðamenn í einskonar pílagrímsferð í Jökulfirði til að sjá með eigin augum upptökustaði Barna náttúrunnar sem náði ásamt kvikmyndinni Á köldum klaka, miklum vinsældum í Japan. Og  auðvitað þekkja allir Björk og Sigurrós. Þrátt fyrir landfræðilega fjarlægð eru Íslendingar og Japanir um margt líkar þjóðir með marga sameiginlega hagsmuni. Japan hefur um áraraðir verið mikilvægur markaður fyrir íslenskar útflutningsafurðir og íslenska vörumerkið er traust. Sjávarafurðir eru um 80 prósent árlegs útflutnings okkar til Japans. Það er einnig vert að hafa í huga að Japan er mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga utan Evrópu, að Bandaríkjunum frátöldum. Á síðasta ári nam útflutningur til Japans rúmum ellefu milljörðum króna eða um tveimur      prósentum heildarútflutnings.    

Á þessum árstíma er stundum fróðlegt að fara yfir hagtölur nýliðins árs, ekki síst til að sjá hvaða vörur og vöruflokkar eru að standa sig af þeim fjölbreyttu og ólíku afurðum sem Íslendingar flytja árlega á Japansmarkað. Hér vekja athygli tölur um hreinsaðan æðardún. Á örfáum árum hefur útflutningur á íslenskum æðardún til Japans vaxið úr engu í rúmar 300 milljónir á síðasta ári. Það er það sama og fékkst fyrir hvalkjöt sem er önnur mikilvæg útflutningsafurð á Japansmarkaði og hefðbundnari.  

Hannes Heimisson í á fundi um æðadúnJapanir þekkja vel til íslenska hvalkjötsins sem er vinsælt og þykir góð vara. Neysluhefð á hvalkjöti er rótgróin. Mest er eftirspurnin á haustin og fram eftir vetri enda kjötið ferskt og fínt. Hvalkjöt er notað í margvíslega rétti og hvert byggðarlag hefur sínar hefðir. Hvalkjöt er líka vinsælla í sumum landshlutum en öðrum. Og það er alls ekki bara réttur fátæka mannsins eins og stundum hefur verið haldið fram. Vissulega hefur dregið úr neyslu á hvalkjöti á síðustu árum og einkum á meðal yngra fólks. En tískusveiflur setja líka svip á eftirspurnina. Mörg af betri veitingahúsum í Tókýó sem sérhæfa sig í kjötréttum bjóða nú í auknum mæli uppá hvalkjöt í ýmsum útfærslum. Oft eru þessir réttir á meðal vinsælustu rétta á matseðlinum. Kjötið er borðað hrátt sem sashimi með léttri marineringu og sojasósu eða þá grillað á viðeigandi hátt sem hver önnur stórsteik. Og það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga, hvaða skoðun sem við almennt höfum á hvalveiðum, að hér í Japan er traustur og öruggur markaður fyrir þessa íslensku afurð sem við að sjálfsögðu þurfum að rækta eftir því sem kostur er.

En það er ekki aðeins hvalkjötið sem heldur uppi heiðri Íslands í Japan. Hér er æðardúnninn að koma sterkur inn eins og áður greinir.  Í Japan er löng og rík hefð fyrir góðum og vönduðum húsbúnaði, ekki síst þeim er tryggir  góðan nætursvefn, gott heilsufar og almenna vellíðan. Mikil eftirspurn er eftir góðum og vönduðum rúmum og sængurbúnaði í hæsta gæðaflokki. Og þar virðist ekki skipta máli hvað hlutirnir kosta. Nú er þessi kröfuharði japanskir markaður nýbúinn að uppgötva einstaka kosti íslenska æðardúnsins.

Um þessar mundir er eftirspurn eftir æðardún meiri en framboðið. Sumar betri sængurfatabúðir bjóða af miklu stolti sérsaumaðar silkisængur með kílói af íslenskum æðardún á eina og hálfa milljón jena eða um eina milljón og átta hundruð þúsund krónur. Og dúnsængurdeildin í sérversluninni er skreytt með íslenska fánanum og fallegum ljósmyndum frá Íslandi. Hér fer hrein og tær ímynd Íslands að mati seljenda vel saman við einstaka náttúruafurð.  Markaðssetningin virðist hafa tekist vel og eftirspurn eftir dúnsængunum einstöku eykst stöðugt. Sængurnar eru á góðri leið með að verða stöðutákn og komnar í tísku sem brúðargjafir. En það eru einnig sóknarfæri á Japansmarkaði fyrir þau íslensku fyrirtæki sem framleiða sængurnar á Íslandi.

Sendiráðið hefur lagt áherslu á að vinna náið með íslenskum æðarbændum og samtökum þeirra að þessari markaðssetningu. Guðrún Gauksdóttir, formaður Æðarræktarfélags Íslands heimsótti Japan sl. haust og kynnti sér markaðinn. Fulltrúi sendiráðsins hélt erindi og svaraði fyrirspurnum á fjölmennum aðalfundi Æðarræktarfélagsins á Hótel Sögu 9. nóvember sl. er vakti verðuga athygli æðarbænda.  Æðarræktarfélag Íslands gaf nýlega út upplýsingaefni á japönsku um æðarrækt á Íslandi í samvinnu við sendiráð Íslands í Tókýó, bæði í formi upplýsingarits og á dvd diski. Japanski markaðurinn er kröfuharður og því skiptir upplýsingamiðlun af þessu tagi miklu máli. Það verður fróðlegt að fylgjast með áframhaldandi velgengni íslensks æðardúns á Japansmarkaði og horfurnar eru bjartar.  

Hannes Heimisson er sendiherra í Tókýó

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta