Utanríkisráðherra ræðir ábyrgð íbúa á norðurslóðum
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, gerði ábyrgð íbúa norðurslóða að umtalsefni í ávarpi sínu á Arctic Frontiers ráðstefnunni í Tromsö fyrr í dag.
Gunnar Bragi segir að með aukinni athygli sem beinist að norðurslóðum og framtíðarmöguleikum svæðisins aukist áherslan á samvinnu og samhæfingu norðurskautsríkjanna átta og alþjóðasamfélagsins. “Þróunin sem hefur átt sér stað setur mikla ábyrgð á herðar okkur, vörsluþjóðum norðurslóða. Þjóðirnar og íbúar norðurslóða þurfa að tryggja að ábyrg auðlindastjórnun og sjálfbærni séu ávallt í hávegum höfð þegar þróun á norðurslóðum er til umræðu.”
Þetta er í áttunda sinn sem Arctic Frontiers ráðstefnan er haldin í Tromsö og þema ráðstefnunnar í ár er Fólk á norðurslóðum. Auk Gunnars Braga eru meðal ræðumanna Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Aleqa Hammond, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands og Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Ávarp utanríkisráðherra (á ensku)