Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Hálft ár í Nuuk

Pétur Ásgeirsson
Petur Ásgeirsson
Þegar ég hugsa til baka til dagsins þegar ég kom hingað fyrst til dvalar finnst mér það hafa verið fyrir nokkrum dögum, svo fljótt hefur tíminn liðið. Ég lennti í Nuuk á sólríkum sumardegi í byrjun júlí í fyrrasumar, með ferðatösku, kassa með tölvu og helstu skrifstofuvörum og íslenska fánann. Ég var búinn að leigja litla íbúð í úthverfi Nuuk og þar starfaði ræðismannsskrifstofan til bráðabirgða. Við höfðum áður gert samning við grænlensku landsstjórnina um að leigja okkur húsið við Hans Egedesvej 9, fyrir skrifstofuna, en húsið þurfti endurbóta við og fyrsta verkefnið var að ráða verktaka og hefja lagfæringar á húsinu, þannig að hægt væri að flytja inn í sumarlok. Húsgögnin og allur búnaður beið í gámi en flest af því hafði áður verið notað í sendiskrifstofu Íslands í Róm, sem var lokað árið 2009. 

Christian W. Wennecke, Mininnguag Kleist, Petur Asgeirsson og Olafur P. Nielsen í Nuuk Grænlandi
Aðkallandi var að ráða starfsmann á skrifstofuna og eftir auglýsingu sóttu sautján manns um stöðuna. Viðtöl við átta umsækjendur voru haldin á hóteli í Nuuk en einn umsækjandinn var í fríi á Íslandi og var viðtal við hana tekið í utanríkisráðuneytinu í ágúst. Það var Benedikte Thorsteinsson, sem var svo ráðinn og hóf störf í byrjun september. Með allri virðingu við aðra umsækjendur var í raun engin samkeppni við Benedikte, enda hefur hún mikla reynslu af starfi í tengslum við samskipti Íslendinga og Grænlendinga, talar Íslensku og dönsku eins og innfædd, auk móðurmálsins, grænlensku. Það var mikið happ fyrir aðalræðisskrifstofuna að krækja í Benedikte. 

Við fluttum svo inn í Hans Egedesvej í byrjun september. Þegar verið var að flytja húsgögnin inn í húsið kom grænlenska ríkissjónvarpið í heimsókn og tók myndir, m.a. af hinum nýja ræðismanni að þrífa húsgögn og ryksuga og var sérstaklega vikið að því í fréttinni að ræðismaður þessi virðist vera óhræddur við að taka til hendinni þegar á þyrfti að halda. Þetta vakti nokkra athygli í bænum og gerist það ítrekað að fólk hafði orð á þessu. Kona ein vék sér að mér í bænum með þeim orðum að ég væri "hann!" Þegar leitað var eftir skýringum á þessu sagði konan: "Du er vores støvsugende konsul!" 

Aleqa Hammond og Gunnar-Bragi í NuukFormleg opnun aðalræðisskrifstofunnar fór fram þann 8. nóvember þegar Aleqa Hammond, formaður landsstjórnar Grænlands og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhjúpuðu embættisskjöld skrifstofunnar, sem festur hafði verið utaná húsið við Hans Egedesvej 9. Í framhaldi af því drógu Ivalu Möller Abelsen, 11 ára, og Margrét Lilja Hauksdóttir, 10 ára, íslenska fánann að húni við húsið. Þær voru klæddar þjóðbúningum landanna tveggja og var þetta mjög hátíðleg og falleg stund.  Í framhaldi af þessu var haldin móttaka í anddyri menntaskólans í Nuuk þar sem utanríkisráðherra og formaður landstjórnar Grænlands héldu ávörp og Ida Heinrich söng íslensk sönglög fyrir viðstadda. Íslensk börn hengja upp íslenska fánan í Nuuk

Fyrir utan þessi verkefni, hefur aðalræðisskrifstofan haldið fjölda funda með íslenskum og grænlenskum fyrirtækjum og einstaklingum, skipulagt ferðir grænlenskra aðila til Íslands og aðstoðað Íslenska aðila sem hafa átt erindi til Nuuk vegna viðskipta eða menningarmála. Skrifstofan hefur einnig tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd íslenskrar viðskiptastefnu í Nuuk, sem haldin var á vegum Íslandsstofu, Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins og Flugfélags Íslands.

Með stofnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk hefur Ísland í fyrsta skipti opnað sendiskrifstofu í Grænlandi. Aðalræðisskrifstofa Íslands er líka eina diplómatíska skrifstofan í landinu og raunar hefur aðeins einu verið erlendur diplómat í Nuuk en það var fyrir meira en hálfri öld síðan. Það er því engin hefð fyrir slíku starfi í Nuuk. Það hefur þó ekki staðið í vegi fyrir einstökum stuðningi grænlenskra stjórnvalda og mikilli gestrisni og jákvæðni í garð skrifstofunnar á meðal fyrirtækja og almennings í Nuuk. Til marks um þetta má nefna að Facebook síða aðalræðisskrifstofunnar hefur verið mjög mikið lesin og í gegnum hana hefur skrifstofan náð til fjölda fólks, bæði á Íslandi og í Grænlandi.

Pétur Ásgeirsson er aðalræðismaður í Nuuk


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta