Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Vetrarhörkur á kosningaári í Washington

Erlingur Erlingsson, andlitsmynd
Erlingur Erlingsson

Nú í byrjun janúarmánaðar teygði sannkallað heimskautafrost sig alla leið niður til Washington DC og hitastigið náði mínus 24 með vindkælingu. Harla óvenjulegt veðurfar borgar sem er á sömu breiddargráðu og Andalúsía og Sikiley. Slíkir kuldar hafa ekki þekkst hér síðan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Þegar litið var yfir frosið Potomac-fljótið hér í miðborginni leitaði hugurinn aftur til stöðu mála hér í borg þegar síðast frysti með þessum hætti. Þá sem nú má segja að kuldinn hafi verið til marks um botnfrosna stjórnmálastöðu og kalt stríð í þinginu. Andstæðingar Bill Clinton sóttu þá mjög að honum í kjölfar þess að Demókratar misstu meirihluta sinn í þinginu og samstarfsvilji flokkanna tveggja var takmarkaður. 

Frozen-potomac

Núverandi Bandaríkjaforseti þarf einnig að takast á við óvinveitt þing og hefur öll orðræða á stjórnmálasviðinu harðnað svo mjög undanfarin ár að elstu menn segjast ekki muna þvíumlíkt. Lengi hefur tíðkast að menn takist harkalega á í þingsölum, en njóti engu að síður góðrar vináttu þess utan. Þetta segja viðmælendur okkar í þinginu hafa gerbreyst og nú ríki þar hálfgert stríðsástand milli flokkanna tveggja og að menn talist vart við, hvorki um málefni né léttvægara efni.

Þetta ástand mun versna áður en það batnar, en nú í haust verða haldnar þingkosningar. Fara slíkar kosningar fram á tveggja ára fresti og er hér um að ræða svokallaðar "miðtímabilskosningar" sem falla á miðju kjörtímabili forseta. Hluti af starfsemi sendiráðsins er að vinna að mótun tengsla við þingmenn, starfslið þeirra og aðra þá sem rýna í eða láta sig varða þróun mála löggjafarvaldsins. Hér í borg eru 176 erlend sendiráð og sendiskrifstofur. Því gefur auga leið að margir eru að reyna að ná athygli ráðamanna til þess að reka sín erindi. Það er því ekki svo að athygli þingmanna eða stjórnarliða fáist með stuttu símtali eða að kalla megi þá til funda eftir hentugleik. Sendiráðið, líkt og sendiráð annarra ríkja, vinnur að því að mynda tengsl með skírskotun til sameiginlegra hagsmuna heimaríkja og þingmanna eða stjórnvalda hérlendis.Lincoln bygging

Í okkar tilfelli hefur reynst happadrýgst að vinna með öðrum Norðurlöndum þegar við á, enda upplifa þau öll að röddin hækkar og ímyndin verður sterkari þegar þau skipa sér saman í fylkingu hér í Bandaríkjunum sem og annars staðar. Eins hefur Ísland sterka rödd þegar málefni norðurslóða ber á góma og hefur tekist að mynda sterk tengsl við öldungardeildarþingmenn Alaska sökum þessa. Þar finnum við fyrir miklum áhuga á samstarfi og samráði sem hefur farið vaxandi á liðnum misserum. Sendiráðið vann m.a. að heimsókn íslensks háskólafólks sem kom hingað til viðræðna við hugveitur, embættismenn og starfslið þingmanna um málefni norðurslóða og möguleika á frekara samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á því sviði.

Málstofa







Vinnu að þeim tengslum er fram haldið á fjölmörgum sviðum og ræðir sendiráðið þau mál m.a. við þingmenn og starfslið þeirra, bandarísku strandgæsluna, utanríkisráðuneytið, varnarmálaráðuneytið, fjölmargar hugveitur og sérfræðinga innan háskólasamfélagsins hér vestra svo að eitthvað sé nefnt. Fela þau samtöl í sér miðlum á sjónarmiðum Íslands, umræðu um alþjóðalög og túlkun þeirra, vernd og nýtingu auðlinda og öryggismál. 

Erlingur Erlingsson er sendiráðunautur í Washington

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta