Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Við ofurefli að etja? Fríverslunarviðræður við Kínverja

Bergdís á fundi
Bergdís Ellertsdóttir

Viðskiptaráðuneyti Kína er stór og mikil bygging. Anddyrið er marmaraklætt og tilkomumikið.  Í lyftunni er motta á gólfinu merkt þriðjudegi á ensku. Veitir eflaust ekki af því að minna þá mörgu sem hingað koma um langan veg hver dagurinn er.  Við erum hingað komin til að undirbúa og hnýta lausa enda svo að hefja megi fríverslunarviðræður við Kína að nýju. Einn vararáðherra kínverska viðskiptaráðuneytisins tekur á móti sendinefndinni og okkur er boðið til sætis í viðhafnarstofu og fært te. Þegar samið er í Kína er te drukkið í lítravís. Ráðherrann talar all nokkra stund um það að nokkuð átak sé að setjast aftur að samningaborðinu eftir svo langt hlé. Við færum kveðjur frá ríkisstjórn Íslands sem er full alvara með gerð fríverslunarsamnings við Kína. Formlegheitunum er lokið og við fundum með aðalsamningamanni Kína, alvarlegum og geðslegum manni sem talar mjög góða ensku, eins og aðrir samstarfsmenn hans. Við sammælumst um að semja fljótt og vel. Lota, en svo nefnist röð funda sem fara fram samtímis í fríverslunarviðræðum, verður haldin í Reykjavík.

Aldrei er svo minnst á fríverslunarsamning Íslands og Kína að menn spyrji ekki hvort ekki hafi verið við ofurefli að etja og að íslensk stjórnsýsla hljóti að vera  of veik og smá til að geta samið  við fjölmennasta ríki heims.  Öll ríki er sannarlega smá í samanburði við Kína. Skiptir þar litlu hvort ríki telja hundruði þúsunda eða milljónir manna. Þeir sem velkjast um í heimi alþjóðlegra viðskipta hitta oftsinnis sömu sérfræðinga fyrir. Jafnvel fjölmenn ríki eiga ekki á að skipa mörgum sérfræðingum á hverju sviði, hvert sérsvið er heimur út af fyrir sig, eins og önnur svið þjóðlífsins, í listum, viðskiptum, íþróttum eða vísindum. Það sama á við í Kína. Stjórnkerfið sem virðist ógnarstórt teflir einatt fram sömu sérfræðingunum. Beri maður saman bækur sínar við kollega annars staðar kemur t.d. í ljós að sá sem stjórnar ferðinni í tollamálunum situr hinum megin borðs hvort sem samið er við Ísland eða Sviss eða önnur ríki.

Bergdís á fundiÞegar viðræður við Kína voru teknar upp að nýju og lota var haldin í Reykjavík röðuðu íslenskir og kínverskir sérfræðingar sér beggja vegna borðs í Þjóðmenningarhúsinu og mátti vart á milli sjá hvor sendinefndin var stærri.  Að sjálfsögðu var kostur að fundir voru haldnir hér á landi og ekki var þörf á að leggja í þann kostnað að ferðast svo fjölmörg til Kína. Þegar síðasta lotan fór fram í Kína vorum við færri á okkar enda en þó nógu mörg til að sinna þeim málum sem enn voru útistandandi. Starfsmenn sendiráðs Íslands í Peking slógust í hópinn og veittu stuðning og góð ráð.

Samningar við önnur ríki eru samstarfsverkefni og að ferlinu koma sérfræðingar flestra ráðuneyta þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk sérfræðinga ýmissa stofnanna eins og frá Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Tollstjóra og Einkaleyfastofu. Stundum liggur mikið á og hafa þarf hraðar hendur. Kosturinn við íslenskt stjórnkerfi getur stundum verið smæð þess og hversu auðvelt er að ná í rétta menn og fá jafnvel ákvörðun ráðherra þegar þörf krefur.

Miklu skiptir að byggja upp traust milli samningsaðila og þá er vænlegast til árangurs að samningsaðilar sýni hver öðrum virðingu. Hurðaskellir á ekkert erindi á fundi þar sem samið er um mikilvæga hagsmuni lands og þjóðar.

Í viðræðunum við Kína kom það í hlut Íslands að leggja til texta að samningi og var þá stuðst við þá samninga sem við höfðum þegar gert í samfloti við önnur EFTA ríki og því voru það við sem þekktum betur orðalag, ástæður og bakgrunn þeirra texta sem unnið var með, sem var svo sannarlega kostur.Fríverslunarviðfræður við Kína, mynd af fundi

Sú mynd sem menn kunna að hafa gert sér í hugarlund af fáliðuðu samningateymi frá Íslandi gegn fjölmennum ofjörlum frá framandi heimshluta á þannig ekki við rök að styðjast.  Hér var ekki um fífldirfsku að ræða og áttum við svo sannarlega ekki í viðræðum við kenjótta ofjarla frá Kína. Meira en fjörtíu ára reynslu í viðræðum um fríverslun og að verja hagsmuni okkar út á við kom sér vel og þar höfðu við töluvert forskot á Kínverja sem tóku sín fyrstu skref út í hið alþjóðlega viðskiptakerfi með aðild að alþjóðaviðskiptastofnuninni 2002 og gerðu fyrsta fríverslunarsamninginn árið 2004 og þá við sjálfsstjórnarsvæði Hong Kong og Makáa.

Bergdís Ellertsdóttir er sendiherra í utanríkisþjónustinni

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta