Hreindýrakvóti ársins 2014
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið hreindýrakvóta þessa árs að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun. Heimilt verður að veiða allt að 1277 dýr á árinu sem er fjölgun um 48 dýr frá fyrra ári.
Heimildirnar skiptast þannig að leyft verður að veiða alls 657 kýr og 620 tarfa. Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingarblaðinu eftir helgi.
Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda.
Veiðitíminn er frá 1. ágúst til og með 15. september, en þó getur Umhverfisstofnun heimilað veiðar á törfum frá og með 15. júlí og lengt veiðitíma kúa til 20. september.
Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.
Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna.
Auglýsing um hreindýraveiðar árið 2014.