Stefna í áfengis- og vímuvörnum
Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Stefnan tekur jafnt til neyslu áfengis, ólöglegra vímuefna og misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum sem valda ávana og fíkn.
Skaðleg neysla áfengis og annarra vímugjafa hefur alvarleg áhrif á lýðheilsu og er einn af helstu áhættuþáttunum sem leiða til verri heilsu, ótímabærra dauðsfalla og þróunar langvinnra sjúkdóma eins og krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma, segir í skýrslu með nýrri áfengis- og vímuvarnastefnu. Bent er á niðurstöður rannsókna sem sýna að hér á landi hefur tekist að draga verulega úr notkun áfengis, ólöglegra vímuefna og tóbaks meðal grunnskólanema á liðnum árum og staða Íslands að þessu leyti sé með því besta sem þekkist í Evrópu. Einnig sé heildarneysla áfengis undir meðaltali í Evrópu og megi ætla að aðhaldssöm stefna í þessum málum eigi þátt í þessum árangri.
Velferðarráðuneytið leiddi stefnumótunarstarfið í samvinnu við innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Embætti landlæknis. Stefnan felur í sér þau meginmarkmið sem að er stefnt en þeim verður fylgt nánar eftir með formlegri aðgerðaáætlun sem tekur til tveggja ára í senn. Aðgerðirnar munu snúa að forvörnum, meðferðarúrræðum, eftirfylgni í kjölfar meðferðar og endurhæfingar auk lagaramma þessara mála og varða starfsemi ríkis og sveitarfélaga, heilsugæslu, félagsþjónustu, menntakerfisins, frjálsra félagasamtaka, löggæslu og tollayfirvalda.
Yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020:
- Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.
- Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
- Að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa.
- Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
- Að tryggja aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggir á bestu þekkingu og kröfum um gæði.
- Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.
Á grundvelli stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun til að vinna að settum markmiðum nýrrar stefnu um áfengis- og vímuvarnir. Gerð áætlunarinnar verður í höndum starfshóps skipuðum fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Embættis landlæknis.