Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2014 Dómsmálaráðuneytið

Óttarr Proppé skipaður formaður þingmannanefndar um endurskoðun útlendingalaga

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Óttarr Proppé, þingmann Bjartrar framtíðar, formann þverpólitísks þingmannahóps til að meta hvort og þá með hvaða hætti þörf sé á heildarendurskoðun á löggjöf um málefni innflytjenda. Innanríkisráðherra mun óska eftir tilnefningum frá öllum flokkum á Alþingi en tilgangurinn með skipan þverpólitískrar nefndar um þessi mál er að tryggja sem best samráð um þau mikilvægu verkefni sem framundan eru í þessum málaflokki.

Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óttarr Proppé.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óttarr Proppé.

Ráðherra hefur nú þegar hafið það ferli að auka gæði og einfalda til muna móttöku og meðferð hælisleitenda til þess að gera ferlið mannúðlegra og sinna þeim betur sem á vernd þurfa að halda. Sú vinna tekur mið af framkvæmd í þeim löndum þar sem talið er að góður árangur hafi náðst. Þar eru Norðurlöndin framarlega en Noregur stendur einna fremst.

Að auki hefur ráðherra mælt á Alþingi fyrir frumvarpi um hraðari málsmeðferð, sérstaka áfrýjunarnefnd og umbætur til að tryggja að hægt sé að svara umsóknum um alþjóðlega vernd fyrr en nú er gert og þannig forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa helst á vernd að halda.

Í vinnu þingmannanefndarinnar verður greint hvort ástæða sé til frekari aðgerða, samhliða því sem farið verður yfir sóknarfæri Íslands með hliðsjón af innflytjendum og fjölbreytni. Að auki verður nefndinni falið að fylgjast með þeim breytingum sem innanríkisráðuneytið hyggst innleiða og gera frekari tillögur til úrbóta ef þörf krefur.

Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, lagði fram frumvarp um breytingu á útlendingalögum á síðasta kjörtímabili. Það frumvarp fékk ekki afgreiðslu en Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur í hyggju að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og halda þeirri vinnu áfram með auknu samstarfi við þingmenn allra flokka.

Í innanríkisráðuneytinu er nú unnið að miklum úrbótum á þessum málaflokki. Sú vinna er leidd er af Ernu Kristínu Blöndal, lögfræðingi hjá ráðuneytinu og sérfæðingi í málefnum flóttamanna, en hún mun einnig starfa með fyrrnefndri þingmannanefnd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta