Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Neyðarkall frá Mombasa

Hermann Ingólfsson
Hermann Ingólfsson

Árið er 1995. Ég er starfsnemi við þróunarsamvinnuverkefni í strandhéruðum Kenía á vegum danskra stjórnvalda. Ég sé með eigin augum afleiðingar sárrar fátæktar. Það er reynsla sem breytir sýn minni á lífið og tilveruna.

Meðan á dvölinni stendur er brotist inn á gistihúsið þar sem ég bý ásamt kærustunni og peningaskáp staðarhaldarans stolið – í heilu lagi. Stórtækir þjófarnir komast á brott með skotsilfur hins indverskættaða gistihúseiganda. Hann kætist lítið enda trú hans á rannsóknargetu keníönsku lögreglunnar engin. Starfsmenn hans grunar reyndar lögguna um að standa sjálf að baki snyrtilega útfærðum verknaðinum.

Námsmaðurinn ofan af Íslandi verður heldur ekki kátur þegar gisthúseigandinn stendur í dyragættinni og tilkynnir með indverskum hreim að hætti Eddie Skoller: “I´m sorry sir, but your passports and airline tickets have been stolen!” Með skotsilfrinu hvarf allt sem var rammlæst í hinum trausta peningaskáp.

HELP! Eftir frábæra dvöl í Mombasa hlakkar unga parið til Íslandsferðar. Jólin nálgast óðfluga og meiri stemming er fyrir smákökum og laufabrauði en kakkalakkastríði við strendur Indlandshafs.

Nú eru góð ráð dýr. Hvert skal hringja? jú, mömmu auðvitað – hún jesúsar sig, hringir um hæl í utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg og segir farir sonarins ekki sléttar. Henni er vel tekið. Kurteis starfsmaðurinn segir þó engan íslenskan ræðismann í Kenía sem geti gripið til sinna ráða - aftur er jesúsað – en vænlegast sé að fastanefnd Íslands í Genf hlutist til um að greiða götu mína.

„Permanent Mission of Iceland, góðan dag” segir silkimjúk og traustvekjandi kvenmansröddin í símann. Mér líður strax betur, kynni mig og segist vera í nokkrum vanda. „Ég er staddur í Mombasa, vegabréfs- og farmiðalaus. Getið þið hjálpað!” – „JESÚS” segir hljómþýða röddin – missir örlítið taktinn en er snögg að ná fyrri yfirvegun. „Jú, við getum örugglega bjargað því”. Samtalið heldur áfram og námsmaðurinn leggur á skömmu síðar, rólegur og sæll í bragði. 

Hermann Ingólfsson í KeniaDagurinn er 18. desember 1995. Unga parið stígur um borð í flugvél Kenya Airways á leið til Kaupmannahafnar. Upp á vasann hafa þau brakandi hvít pappírssnifsi með áletrun sem segir þetta vera bráðabirgðavegabréf íslenska ríkisins. Blátt stimpilfar sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn vottar áreiðanleika parsins.

„Vegabréfin” höfðu borist örfáum dögum eftir þjófnaðinn í gegnum sendiráð Danmerkur í Naíróbí. Íslensk viðbragðsflýti. Norræn samvinna. Ánægður námsmaður – reynslunni ríkari – á leið í íslenska jólagleði.

Dvölin í Mombasa verður til þess að ég breyti um kúrs á mínum starfsferli. Það er þó baráttan við fátækt sem er helsti hvatinn - ekki blái stimpillinn – og við það hef ég unnið meira og minna síðan 1997, sem starfsmaður utanríkisráðuneytisins.

Flugtak. Sléttur Austur-Afríku hverfa í fjarska. Unga parið hlakkar til að komast á norðurslóðir.  Sæluglampinn í augum þeirra væri þó dempaðri ef þau vissu að framundan er langt ferðalag með malaríuveika kærustuna. Óförunum er svo sannarlega ekki lokið.

Hermann Ingólfsson er sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta