Skýrsla um rannsókn efnahagsbrota lögð fram á Alþingi
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lagði í dag fram á Alþingi skýrslu nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotum sem skilað var til innanríkisráðherra fyrir áramót. Um leið var efnt til umræðu um skýrsluna á Alþingi og í lok hennar var skýrslunni vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar að ósk ráðherra.
Innanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að þessu tilefni að vonir hennar stæðu til þess að þingheimur leitaði tækifæra til að færa sig á nýjan stað þegar kæmi að umræðu og meðhöndlun efnahagsbrota. Legið hefði fyrir frá upphafi stofnunar embættis sérstaks saksóknara að embættið væri stofnað til að bregðast við hinum sérstöku og óvenjulegu aðstæðum sem sköpuðust á fjármálamarkaði í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008. Um það hefði ríkt pólitísk sátt og þingheimur allur gert sér grein fyrir því frá upphafi að hér væri um tímabundið verkefni að ræða
Þá sagði ráðherra jafnframt að í fjárlögum þessa árs væri gert ráð fyrir minnkandi fjárheimildum til embættisins. Það væri í samræmi við upphaflega áætlun um starfsemi þess þar sem gert var ráð fyrir að fjárheimildirnar myndu lækka eftir því sem rannsókn mála í tengslum við bankahrunið lyki. Hún tók fram að innanríkisráðuneytið myndi þó á þessu ári vinna náið með embætti sérstaks saksóknara vegna fjárhagslegs uppgjörs embættisins með það að markmiði að vel takist að ljúka þeim rannsóknum og verkefnum sem sérstakur saksóknari hefur með höndum.
„Okkur er á sama tíma ljóst að til frambúðar gerist ekki þörf á svo viðamiklu og í raun krísutengdu embætti sem embætti sérstaks saksóknara er. Það breytir því þó ekki að við sem hér sitjum viljum að rannsókn og saksókn efnahagsbrota sé í traustum og góðum farvegi eins og með önnur afbrot í landinu. Þess vegna tel ég rétt að leggja fyrrnefnda skýrslu fram hér í dag og um leið að hvetja þingheim allan til að taka afstöðu til hennar og framtíðarskipunar þessara mála,“ sagði Hanna Birna í ræðu sinni.
„Mér þykir sem fyrr segir rétt að leggja þessa skýrslu fram hér á Alþingi og óska um leið eftir því að þingið bæði ræði og taki afstöðu til innihalds skýrslunnar, en ekki síður móti með sér skoðun á því hvernig þessum málum verður háttað til frambúðar. Ég tel eðlilegt að þingið fari yfir umfang, kostnað og fleira sem snýr að rannsókn og saksókn efnahagsbrota. Ég tel líka mikilvægt að þingmenn allri flokka fái tækifæri til að eiga aðkomu að framtíðarskipan þessara mála þannig að um þau náist pólitísk sátt. Verkefnið nú er að setja þessi mál í þann farveg að rannsókn og saksókn efnahagsbrota sé framkvæmd með skilvirkum hætti, að það fjármagn sem lagt er í málaflokkinn nýtist vel og að traust skapist á þeim farvegi sem málið verður sett í.“
Umrædd skýrsla er skrifuð af nefnd sem þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, skipaði í janúar 2012 í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um embætti sérstaks saksóknara. Þar er kveðið á um að innanríkisráðherra skuli skipa nefnd sérfróðra manna til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Nefndinni bar í störfum sínum að hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndum.
Nefndina skipuðu þau Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt var formaður hennar, Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri og Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í júní 2012 tók Valgerður Rún Benediktsdóttir, skrifstofustjóri í sama ráðuneyti, sæti Þóru í nefndinni. Með nefndinni starfaði síðan Gunnlaugur Geirsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.