Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Viðskiptasamráð með Rússum

Högni S. Kristjánsson og Sergei Karaulov.

Í dag fór fram samráðsfundur Íslands og Rússlands um tvíhliða viðskipti og samstarfsverkefni í Reykjavík.  Slíkir fundir eru haldnir einu sinni til tvisvar á ári og á þeim eru tekin fyrir fjölbreytt málefni með það að markmiði að stuðla að og greiða fyrir viðskiptum á milli landanna, t.d. með því að ýta undir samningagerð, efla tengsl milli stjórnsýslu landanna, skiptast á upplýsingum um þróun efnahagsmála, álitamál, áskoranir og tækifæri.

Málefni fundarins í dag snéru að ferðaþjónustu, matvælum, fjarskiptum, fjárfestingatækifærum og orkumálum. Þá voru kynnt nokkur nýsköpunarverkefni sem Nýsköpunarmiðstöð vinnur að með rússneskum vísindamönnum og fyrirtækjum. Sendiráð beggja landa vinna ötullega að því að fylgja þessu málum eftir í samstarfi við atvinnulífið.

Vöruútflutningur til Rússlands nam rúmum 24 milljörðum árið 2012 (7. sæti) en makríll er uppistaða útflutnings þangað. Útflutningur á þjónustu nam 6,2 milljörðum. Innflutningur á vöru og þjónustu frá Rússlandi nam hins vegar 5 milljörðum kr. en rúmur helmingur þess er jarðolía.

Rússnesk stjórnvöld leggja áherslu á að nútímavæða atvinnulífið með ýmsum hætti. Rússland gerðist til að mynda aðili að Alþjóðaviðskiptastofnunni (WTO)  árið 2012 og hefur jafnframt sóst eftir því að gerast aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Til þess að það takist, þarf Rússland að uppfylla fjölmörg skilyrði um stjórnsýslulegar og lagalegar umbætur sem OECD setur og er sú vinna í fullum gangi.

EFTA ríkin, þ.á.m. Ísland,  eiga í viðræðum við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan um fríverslunarsamning.   Ljóst er að niðurfelling tolla og frekari  samræming á starfsumhverfi fyrirtækja í Rússlandi við alþjóðlega staðla myndi skapa veruleg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf á rússneskum markaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta