Öryggi og ólympíufarar í Sochi
Þá er það tíunda vopnaleit dagsins og allir, sem hafa farið gegnum Keflavíkurflugvöll á háannatíma geta ímyndað sér hvernig það er. Fjölþreifnir öryggisverðir sem senda þig fram og aftur gegnum tístandi vopnarleitarhlið, en ég er staddur í Sochi í Rússlandi að undirbúa komu íslenskra Ólympíufara. Máltækið allur er varinn góður er gott og gilt hér, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hryðjuverkamenn hóta árásum meðan á Ólympíuleikunum stendur, en þeir hefjast 7. febrúar. Hvort sem við erum í London, New York eða Madríd þá eru það svona ógnir sem við búum við í heiminum í dag. Moskva, þar sem ég bý, hefur á síðustu árum því miður nokkrum sinnum orðið fyrir árásum hryðjuverkamanna. Utanríkisþjónustan hefur komið að málum í öllum þessum borgum og aðstoðað íslenska ríkisborgara þegar slíkir atburðir hafa riðið yfir.
Sochi er strandbær við Svartahaf og innan um pálmatrén og byggingarkranana er erfitt að ímynda sér að hér séu að fara að hefjast vetrarólympíuleikar eftir um tvær vikur. Markmið ferðarinnar til Sochi að þessu sinni er að sækja ráðstefnu um skipulag, öryggismál og aðbúnað gesta. Hér er ég staddur með fulltrúum allra norrænu sendiráðanna í Moskvu og státa mig af því að við séum með álíka stóran hóp og Danir, kannski skýrist það af því að Himmelbjerget er aðeins 147 metra hátt og ekki hentugt til iðkunar vetraríþrótta. Það aftrar því þó ekki að ég státi mig af þessu gagnvart Dönum sem allt of oft slá okkur við í íþróttum.
Það rennur fljótlega upp fyrir mér að Ólympíuleikarnir fara alls ekki fram í Sochi heldur í tveimur nágrannabæjum sem nefnast Adler og Krasnaya Polyana, sem eru álíka langt frá Reykjavík og Reykjanesbær og Hvolsvöllur ef við tökum mið af fjarlægðum sem við þekkjum. Skíðasvæðin, sem eru í rúmlega klukkutíma akstursfjarlægð upp í fjöllin frá ströndinni virðast glæsileg og smá möguleiki á að þau slái jafnvel Hlíðarfjalli við þegar sólin fer að skína og brekkurnar fyllast.
Mikill undibúningur liggur að baki Ólympíuleikum, fyrst og fremst hjá íþróttamönnunum auðvitað, sem hafa í áraraðir æft sig til að komast á leikana. Ólympíuleikar eru ekki bara keppni þeirra bestu í hinum ýmsu íþróttum heldur einnig vettvangur þar sem fulltrúar þjóða heims koma saman, kynnast og tengjast vináttuböndum. Það verða rúmlega 2.500 íþróttamenn frá um 90 þjóðum á Sochi leikunum. Íslenski ólympíuhópurinn telur 14 manns auk opinberra gesta.
Mitt hlutverk í öllu þessu mun verða að dvelja í Sochi í nokkra daga meðan á opnun leikanna stendur, sinna opinberum gestum, gæta öryggis og aðstoða Íslendinga lendi þeir í hrakningum. Það er mikill heiður að fá það hlutverk að vera einn af fulltrúum Íslands, kynnast fræknum fulltrúum íþróttahreyfingarinnar sem þarna verða en fyrst og fremst að geta þjónað íslenskum ríkisborgrum á svæðinu.
Áfram Ísland í Sochi 2014.
Hreinn Pálsson er sendiráðunautur í Moskvu