Norðurlönd taka þátt í loftvarnaræfingu á Íslandi
Loftvarnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Iceland Air Meet 2014, hófst með formlegum hætti í morgun. Æfingin er haldin samhliða reglubundinni loftrýmisgæsluvakt Atlantshafsbandalagsins á Íslandi sem Norðmenn hafa með höndum að þessu sinni. Samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins, Svíþjóð og Finnland, taka þátt í æfingunni en sinna ekki loftrýmisgæsluverkefnum. Holland og Bandaríkin leggja til eldsneytisflugvélar sem þjónusta flugsveitirnar ásamt radarflugvél frá Atlantshafsbandalaginu.
Þetta er í fyrsta skipti sem Svíar og Finnar taka þátt í loftvarnaræfingum á Íslandi og er æfingin mikilvægur liður í auknu öryggis- og varnarsamstarfi Norðurlandanna sem hefur vaxið ásmegin á síðustu árum. Tilgangur æfingarinnar er að æfa samhæfingu aðgerða milli flugherja þátttökuríkjanna. Þá gefst tækifæri til leitar- og björgunaræfingar hér á landi með loftförum og mannafla Landhelgisgæslunnar og annarra innlendra aðila.
Æfingin er með stærstu varnaræfingum sem haldin hefur verið hérlendis á síðustu árum en í henni taka þátt 300 manns og 23 erlend loftför þ.m.t. 18 herþotur frá Norðurlöndunum ásamt tveimur finnskum leitar- og björgunarþyrlum. Æfingunni lýkur 21. febrúar n.k.