Fyrsta íslenska matreiðslubókin í Japan
Japanskt bókaforlag hafði samband við sendiráðið í Tokyo snemma árs 2012 en það hafði lagt mikla vinnu og fé í Íslandskynningu í veglegu tímariti um mat og ferðalög sem heitir AZUR. Forlagið hafði engu til sparað m.a. sent tökulið til Íslands og til stóð að hafa þetta tíu opnur í lit með lofsamlegri umfjöllun um Ísland. Það sem vantaði hins vegar til að gera þessa útgáfu sem besta úr garði, var kafli um íslenska matargerð.
Hvað er til bjargar þegar krækja þarf í umfjöllun um íslenskan mat í vinsælt japanskt tímarit, engan íslenskan matreiðslumann er að finna í 35 milljóna stórborg, ekkert hefur verið skrifað áður um þetta efni á japönsku og peningar ekki til? Í Tokyo hafa flest sendiráð sitt eigið matreiðslufólk en ekki íslensk sendiráð. Þá verður að redda hlutunum eins og oft skeður í sendiráðum okkar.
Eiginkona mín heitir Guðrún Bryndís Harðardóttir, bakara á Skaganum, alin upp við bakstur heimafyrir frá blautu barnsbeini og lærði undirstöður íslenskrar eldamennsku hjá Guðrúnu ömmu sinni á Hellissandi. Guðrún Bryndís dvaldi hjá Guðrúnu ömmu og Sigurði afa fjöldamörg sumur og lærði þar að handleika ferskasta sjávarfang í heimi, setja upp læri og hrygg og búa til dásamlega kjötsúpu.
Guðrún Bryndís gekk í það hlutverk að leggja forlaginu lið með þremur klassískum íslenskum uppskriftum í AZUR, nefnilega fiskibollum, kjötsúpu og heit súkkulaðiköku (litla syndin ljúfa). Vinnslan á þessu efni fór fram í sendiráðinu og tók tvo daga. Við vorum því harla ánægð með framlag Guðrúnar Bryndísar til þessarar Íslandskynningar og töldum þessu verkefni þar með lokið.
Okkur til mikillar undrunar óskaði forlagið aftur eftir fundi í sendiráðinu til ræða áframhald á þessari útgáfu. Þeir tjáðu Guðrúnu Bryndísi að þeir hefðu fengið mjög sterk viðbrögð við tölublaðinu með mataruppskriftunum og óskuðu eftir frekara samstarfi. Íslensku uppskriftirnar væru einfaldar, auðskiljanlegar og féllu vel að japönskum smekk. Nú var um að gera að nýta þetta tækifæri að koma íslensku sjávarfangi og landbúnaðarafurðum á framfæri í Japan. Umfang verkefnisins yrði 26 réttir gerðir eftir íslenskum uppskriftum sem myndu birtast í sérstakri matreiðslubók helgaðri íslenskri matargerð, hráefnum frá Íslandi og kynningu á landinu. Tímapressa var á verkefninu, þ.e. einungis rúmur mánuður var til stefnu. Forlagið myndi greiða fyrir allt hráefnið.
Forsíða matreiðslubókarinnar góðu
Rokið var til við að gramsa í skúffum og hillum eftir uppskrifum, hringja til Íslands og tala við ættingja, kanna hvaða íslenskt hráefni væri hægt að kaupa í Tokyo, gera tillögur varðandi uppskriftir, leggja fyrir forlagið, binda á sig svuntuna og byrja! Sú sem bar hitann og þungann af þessu verkefni var Guðrún Bryndís en við feðgarnir fengum það hlutverk að borða réttina, kvöld eftir kvöld í heilan mánuð. Starfsfólk forlagsins fylgdi Guðrúnu eftir frá morgni til kvölds og stundum urðum við að leita á náðir ónefndrar hamborgarkeðju þegar fullnægjandi árangur lét á sér standa í lok vinnudags en oftast var það svo að biðlundinn borgaði sig.
Þessir íslensku dagar liðu í angan af lambalæri, íslenskum humar í smjöri, pönnukökum, kreppubrauði, ofnsteiktum laxi, humarsúpu, þorski í karrýsósu, gufusoðnum flatfisk með ígulkerasósu og fleiru og fleiru. Verkinu lauk um síðir, tökuliðið pakkaði saman og kvaddi og nokkru seinna kom matreiðslubók Guðrúnar Bryndísar, eiginkonu minnar, út á japönsku í nettu broti og ríkulega myndskreytt. Hún var seld í Tokyo undir heitinu „Ambassador's Table“ en hefði frekar átt að heita „Guðrún's Table“. Í kjölfarið fékk Guðrún fjölda eintaka til áritunar en einu launin hennar fyrir allt þetta matargerðarátak var kassi af bókum sem notaður var til gjafa í sendiráðinu.
Þegar við síðast fréttum hafði bókin selst í vel rúmlega 20.000 þúsund eintökum í Tokyo.
Stefán Lárus Stefánsson er sendiherra í utanríkisþjónustunni. Hann gegndi stöðu sendiherra í Japan 2008-2013