Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Leiðir til að fjölga körlum í kennslu- og umönnunarstörfum

Á skólabekk
Á skólabekk

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynja býður til opins umræðufundar fimmtudaginn 13. febrúar þar sem rætt verður um leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum. Eitt af verkefnum hópsins er að stuðla að aðgerðum sem brjóta upp kynskiptan vinnumarkað og draga úr kynbundnum launamun.

Aðgerðahópur um launajafnrétti kynja var skipaður í lok árs 2012 til þess að vinna að jafnlaunamálum. Verkefni hópsins eru meðal annars að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast framkvæmd tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals ÍST-85:2012 og annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.

Niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna benda til þess að engin ein aðgerð sé líklegri til að minnka launamun karla og kvenna en að draga úr kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði. Aðgerðahópurinn mun beita sér fyrir þessu og efnir því til tveggja opinna umræðufunda á næstunni til að ræða hvernig ýta megi undir að karlar hasli sér völl í umönnunar- og kennslustörfum og að konur sæki í auknum mæli í hefðbundin „karlastörf“.

Karlar í umönnunar- og kennslustörfum –  Fundur 13. febrúar

Þann 13. febrúar verður haldinn opinn fundur um karla í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hótel Reykjavík kl. 11:45–13:30. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra setur fundinn, Jón Yngvi Jóhannsson, formaður starfshóps um karla og jafnrétti kynnir niðurstöður skýrslu hópsins um karla og kynbundið náms- og starfsval, Ingólfur V. Gíslason lektor í félagsfræði fjallar um karla í umönnunarstörfum og að því loknu verða pallborðsumræður um málefnið.

Konur í „karlastörfum“ – Fundur 26. febrúar

Þann 26. febrúar verður efnt til opins fundar á Grand Hótel Reykjavík kl. 8.30–10.30 um konur í hefðbundnum „karlastörfum.“ Fundurinn hefst með ávarpi félags- og húsnæðismálaráðherra, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands fjallar um stöðu kvenna innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs háskólans og ríkislögreglustjóri ræðir um stöðu jafnréttismála innan lögreglunnar og ræðir um áskoranir og tækifæri. Að því loknu verða pallborðsumræður.

Nánari upplýsingar verða birtar síðar. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta