Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fær aukið fé til þjónustu við börn

Börn
Börn

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 32 milljóna króna fjárframlag sem verja á til sálfélagslegrar meðferðarþjónustu fyrir börn á þjónustusvæði stofnunarinnar. Á grundvelli þess hefur stofnunin þegar ákveðið að ráða tvo sálfræðinga til starfa.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leitað til ráðuneytisins á liðnu ári og óskað eftir fjárveitingu til að fjölga starfsfólki hjá Þroska- og hegðunarmiðstöð stofnunarinnar vegna langs biðlista eftir þjónustu stöðvarinnar. Ráðherra brást við erindinu með ákvörðun um 32 milljóna króna aukið framlag til stofnunarinnar sem tilkynnt var um í desember síðastliðnum. Í bréfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til ráðherra þar sem þakkað er fyrir framlagið kemur fram að það verði nýtt til að ráða einn sálfræðing til Þroska- og hegðunarstöðvar og sálfræðing í hálft starf til Heilsugæslunnar í Mjódd.

Sálfræðingar hjá 10 af 15 heilsugæslustöðvum

Með ráðningu sálfræðings í Mjódd starfa nú sálfræðingar hjá 10 af 15 stöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Stofnunin hefur um árabil stefnt að því að tryggja öllum börnum og ungmennum sálfræðiþjónustu í umdæmi stofnunarinnar og þetta er því mikilvægur áfangi að því marki.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir það tvímælalaust jákvæða þróun að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og mjög mikilvægt að styrkja þjónustu heilsugæslunnar við börn eins og þarna sé verið að gera.

Grunnstoð heilbrigðiskerfisins

Heilsugæslan á að vera grunnstoð heilbrigðiskerfisins. Ný könnun á viðhorfum notenda til þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins benda til þess að hún standi ágætlega undir þeim merkjum þar sem 83% notenda eru ánægðir með þjónustuna. „Það sem notendur telja helst þurfa að bæta er bið eftir þjónustu sem á sumum stöðvum er óhæfilega löng. Þessu getum við örugglega bætt úr, ekki fyrst og fremst með auknum fjármunum heldur betra skipulagi og þverfaglegri samvinnu“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta