Ráðherrar ræddu um loftslagsmál og endurnýjanlega orku í Japan
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti í dag fund með Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, í Tókýó. Ráðherrarnir ræddu um ýmis umhverfismál, þar á meðal um loftslagsmál og hlutverk endurnýjanlegrar orku til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig bar önnur mál varðandi samstarf Íslands og Japans á góma, þar á meðal mögulega fríverslunarsamning EFTA og Japans og ósk Íslands um að gera loftferðasamning við Japan.
Ráðherra er nú í vinnuheimsókn í Japan, þar sem hann hittir ráðamenn og kynnir sér samstarf Íslands og Japans á ýmsum sviðum. Ishihara heimsótti Ísland síðastliðið sumar og kynnti sér þá m.a. reynslu Íslands af nýtingu jarðhita. Japanir hafa hug á að nýta jarðhita í auknum mæli til að mæta orkuþörf sinni, en notkun kjarnorku hefur dregist saman þar í landi eftir slysið í Fukushima-verinu og vilji er til þess að nýta endurnýjanlega orku fremur en jarðefnaeldsneyti til að fylla skarð kjarnorkunnar. Ishihara tilkynnti á fundinum að Japan hyggðist senda sendinefnd til Íslands á vegum japönsku orkustofnunarinnar, JOGMEG, til að fylgja frekar eftir því samstarfi sem komið er á í jarðhitamálum.
Ráðherrarnir ræddu um stöðuna í alþjóðlegum loftslagsviðræðum, en stefnt er að nýju alþjóðlegu samkomulagi í loftslagsmálum í árslok 2015. Ráðherrarnir voru sammála um að í viðbót við hnattrænt samkomulag væri æskilegt að stuðla að útbreiðslu loftslagsvænnar tækni, ekki síst í þróunarríkjunum.
Fyrr um daginn heimsótti Sigurður Ingi aðalstöðvar Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó og átti fund með David Malone, rektor Háskólans. Malone þakkaði Íslandi fyrir framlag sitt til Háskólans, en fjögur þjálfunarverkefni eru rekin á vegum hans á Íslandi; á sviði jarðhitanýtingar, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála.
Á fundi ráðherranna kom fram vilji til þess að efla samstarf ríkjanna enn frekar, en Japanir hyggjast formlega opna sendiráð á Íslandi nú í vor með sendiherra í Reykjavík, en japönsk sendiskrifstofa hefur verið starfandi hér um hríð.