Úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað af sér skýrslu um úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins skv. samningi þar um milli utanríkisráðuneytisins og stofnunarinnar og undirritaður var 25. október 2013.
Í úttekt Hagfræðistofnunar var sjónum sérstaklega beint að þeim tíma frá því er Ísland sótti um aðild að sambandinu, sumarið 2009, og litið jafnt til laga- og stofnanalegra þátta og efnahagsmála. Viðamikilli úttekt Hagfræðistofnunar er skipt í fjóra meginþætti og er í hverjum hluta fjallað sérstaklega um framtíðarhorfur í þeim málaflokki sem til umfjöllunar er, sérstaklega er kemur að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Efnisþættirnir eru eftirfarandi:
A. Staða aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins.
B. Laga- og stofnanaþróun Evrópsambandsins.
C. Staða og horfur í efnahagsmálum Evrópusambandsins
D. Samantekt helstu niðurstaðna.
Leitað var víða fanga við efnisöflun vegna úttektarinnar og var leitað til fjölmargra sérfræðinga við gerð hennar og unnar sérstakar úttektir. Megintexti skýrslu Hagfræðistofnunar er á ábyrgð stofnunarinnar einnar en efnismiklir viðaukar, fimm talsins, eru á ábyrgð höfundanna.
Úttekt um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið