"Óábyrgt að halda þessari vegferð áfram"
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kynnti í dag á Alþingi úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins sem gerð var að beiðni utanríkisráðuneytisins og kveðið var á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Utanríkisráðherra fagnaði skýrslunni. Að mati ráðherra sýnir skýrslan fram á að á vegum Evrópusambandsins sé rekin óbilgjörn stækkunarstefna sem í besta falli sé ósanngjörn fyrir ríki eins og Ísland, en í versta falli úlfur í sauðargæru, eins og berlega hafi komið í ljós í deilunum um Icesave og makríl. Mikill munur sé á milli sýndar og veruleika þegar komi að kjarnahagsmunum Íslendinga í sjávarútvegi og landbúnaði og að lagaleg rök bendi eindregið til þess að engar líkur séu á samningsniðurstöðu milli ESB og Íslands í þessum málaflokkum. Þá sýni þróunin í efnahagsmálum Evrópu síðustu árin að allt of snemmt sé að ætla að stöðugleika hafi verið náð.
„Ég er sannfærður um að af gefnum þeim forsendum sem hér blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar, sé óábyrgt að halda þessari vegferð áfram,“ sagði utanríkisráðherra.
Í máli ráðherra kom fram að skýrslan leiði í ljós þá galla sem séu á aðildarviðræðum við ESB. Sambandið sé við stjórnvölinn, það stýri ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla. Sagði ráðherra ESB í raun ekki í stakk búið að taka á móti velmegandi ríki eins og Íslandi og að eiga samninga um aðild á jafnræðisgrundvelli.
Glögglega hafi komið fram í viðræðunum hversu ósamrýmanlegar stærðir landbúnaður í strjálbýlinu á Íslandi og landbúnaður í Evrópu þar sem hver hektari er nýttur, séu. Réttara sé að tala um eðlismun en stigsmun þegar komi að muninum á sjávarútvegi á Íslandi og sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Þá sagði ráðherra það skoðun sína að það hafi verið ábyrgðarhluti að halda umsóknarferlinu áfram á meðan einhverjir mestu umbrotatímar í efnahagslífi Evrópu hafi staðið og bersýnilegt að hin ætluðu kraftaverk myndu láta á sér standa.