Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sóknarfæri í jarðhitanýtingu í Japan

Frá jarðhitaráðstefnunni á þriðjudag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði sl. þriðjudag í Tókýó ráðstefnuna „Japan Iceland Geothermal Forum 2014“, þar sem fjallað var um jarðhitasamvinnu Íslendinga og Japana. Sigurður Ingi sagði mikla möguleika felast í samvinnu þjóðanna.

Ráðstefnan var haldin á vegum Íslensk-japanska verslunarráðsins í samstarfi við  Bloomberg-fréttaveituna og var hún vel sótt. Rúmlega 120 manns mættu og komust færri að en vildu.  Á meðal gesta voru japanskir þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar fjármálastofnana, orkufyrirtækja og fyrirtækja sem eru að þróa jarðvarmavirkjanir og vilja læra af reynslu og árangri Íslendinga.

Ráðstefnan var styrkt af japönsku fyrirtækjasamsteypunum Mitsubishi Hitachi Power Systems og Fuji Electric.

Ráðherra sagði að engin þjóð nýtti jarðhita á jafn víðtækan hátt og Íslendingar. Loftslagsbreytingar kölluðu á aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku í stað jarðefnaeldsneytis og jarðhiti um allan heim væri mikilvæg og vannýtt auðlind. Japanir framleiddu meirihluta af hverflum fyrir jarðhitavirkjanir í heiminum og japönsk tækni og íslensk þekking væru víða lykilþættir í nýtingu jarðhita. Miklir möguleikar væru á nýtingu íslenskrar þekkingar við jarðhitanýtingu í Japan en einnig væri hugsanleg samvinna ríkjanna í jarðhitavæðingu í þróunarríkjum.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kynnti nýtingu jarðhita á Íslandi. Hann greindi frá því að hitaveita í Reykjavík hefði samtals sparað losun um 100 milljón tonna af koldíoxíði og að árið 2010 hefði þjóðhagslegur ávinningur af jarðvarma verið á bilinu 480-830 milljóna Bandaríkjadala.

Bolli Thoroddsen, formaður Verslunarráðsins og framkvæmdastjóri Takanawa, fór yfir með hvaða hætti íslensk jarðvarmafyrirtæki gætu aðstoðað Japan við þróun jarðvarma. Til dæmis á sviði yfirborðsrannsókna, jarðborana og nýtingu jarðvarma við gerð hitaveitna. Með sama hætti fjölluðu japönsku fyrirlesaranir frá Mitsubishi og Fuji um áratuga árangursríka reynslu af samvinnu við Íslendinga.

Fulltrúi japanska iðnaðar- og efnahagsráðuneytins sagði að í Japan sé þriðji mesti jarðhitaforði ríkja heims, en væri þó enn mjög lítið nýttur. Jafnframt að japönsk stjórnvöld leiti nú leiða til að efla nýtingu jarðhita í kjölfar slyssins í kjarnorkuverinu í Fukushima. En það hefur kallað á endurskoðun á orkustefnu Japana og aukna áherslu á endurnýjanlega orku. Ritað var undir samstarfsyfirlýsingu íslenskra og japanskra stjórnvalda um jarðhita árið 2012 og Sigurður Ingi tók á móti umhverfisráðherra Japans, Nobuteru Ishihara er heimsótti Ísland í fyrrasumar og kynnti sér jarðhitavirkjanir.

Einnig var á ráðstefnunni rætt um nýtingu jarðhita á heimsvísu, en talið er að einungis um 6% af nýtanlegum jarðhita sé nú virkjaður. Talið er að nýting jarðhita muni mögulega tvöfaldast fram til 2030, en það er þó hægari vöxtur en í nýtingu vind- og sólarorku.

Sigurður Ingi hitti ennfremur Yoshimasa Hayashi, sjávarútvegsráðherra Japans og ræddu þeir um viðskipti með sjávarafurðir og möguleika á fríverslunarsamningi Japans við EFTA-ríkin. Japan er annað helsta viðskiptaland Íslands utan Evrópu og eru sjávarafurðir um 80% útflutnings Íslands til Japans. Hayashi sagði að íslenskar sjávarafurðir væru þekktar í Japan fyrir gæði og sagði Japana hafa áhuga á fríverslun við Evrópuríki.

Ráðherra ræddi við fréttamenn frá Bloomberg og Nikkei, sem er helsti fjölmiðill á sviði viðskipta í Japan. Hann átti einnig vinnufund með Íslensk-japanska Verslunarráðinu, en þar er nýkjörin stjórn sem hefur eflt starfsemi ráðsins að undanförnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta