Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Svanurinn á erindi í minni samfélögum

Norræna umhverfismerkið Svanurinn.

Norrænu sjálfsstjórnarsvæðin í Færeyjum, Grænlandi og á Álandseyjum geta horft til reynslu Íslendinga af framgangi norræna umhverfismerkisins Svansins. Út er komin ný norræn skýrsla þar sem fjallað er um „vaxtarverki“ Svansins í minni norrænum samfélögum.

Haustið 2012 gaf Norræna ráðherranefndin út bækling sem innihélt 18 frásagnir af jákvæðri reynslu lítilla fyrirtækja í fámennum samfélögum á Norðurlöndum af því að merkja vörur sínar og þjónustu með umhverfismerkingum á borð við Svaninn og evrópska umhverfismerkið Blómið. Frásagnirnar sýndu að umhverfismerking er ekki aðeins möguleg heldur getur hún verið ábatasöm, jafnvel þótt fyrirtæki sé lítið og starfi í fámennu samfélagi.

Nú er komin út skýrsla sem fylgir þessum frásögnum eftir. Hún inniheldur ítarlegri rannsókn á því hvað þurfi til svo Svanurinn verði aðgengilegri fyrir framleiðendur vöru og þjónustu í litlum samfélögum á Norðurlöndum. Skýrslan var unnin af ráðgjafafyrirtækinu Umhverfisráðgjöf Íslands (Environice).

Norræni Svanurinn er talinn meðal viðurkenndustu umhverfismerkja og hefur lengi átt velgengni að fagna í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Síðustu fjögur ár hefur merkinu einnig vaxið fiskur um hrygg á Íslandi sem endurspeglast í fimmföldun íslenskra Svansleyfa á þessu tímabili. Hins vegar hefur Svanurinn ekki notið jafn mikilla vinsælda á minni sjálfsstjórnarsvæðunum. Þannig hefur ekkert Svansleyfi verið gefið út á Grænlandi, aðeins tvö í Færeyjum og fjögur á Álandseyjum.

Til eru Svansskilyrði fyrir ríflega 60 flokka vöru og þjónustu en einungis hluti þeirra er líklegur til að eiga við í litlum, norrænum samfélögum. Vaxtarmöguleikar Svansins eru engu að síður verulegir á þessum svæðum ef marka má nýju skýrsluna en þar er bent á að af þeim 1700 fyrirtækjum sem bjóða vörur og þjónustu í þeim flokkum sem þó eiga við á þessum stöðum hafa aðeins 31 fengið Svansvottun.

Tvennt er talið hafa haft afgerandi áhrif á framgang Svansins á Íslandi undanfarin ár; markviss stefnumótun stjórnvalda og virk áætlun um innleiðingu vistvænna opinberra innkaupa sem felur í sér að sett eru fram umhverfisskilyrði í útboðsgögnum. Benda skýrsluhöfundar á að af þessu geti önnur minni samfélög á Norðurlöndum lært.

Skýrsluhöfundar mæla ekki með því að komið verði á fót sérstökum vottunarskrifstofum fyrir Svaninn á sjálfsstjórnarsvæðunum heldur að efnt verið til samvinnu við þær skrifstofur sem þegar eru á hinum Norðurlöndunum. Lagt er til að farið verði í átak á þessum svæðum til að kynna Svaninn sérstaklega fyrir fyrirtækjum og almenningi. Sömuleiðis er lagt til að hið opinbera ýti undir vistvæn opinber innkaup, með sérstakri áherslu á ákveðna flokka vöru og þjónustu.

Þá er mælt með ýmsum fleiri aðgerðum, s.s. að þýða kynningarefni um Svaninn yfir á tungumál þessara svæða, að þjálfa upp ráðgjafa sem geta aðstoðað í vottunarferli og að gera kannanir á því hversu vel almenningur á þessum stöðum þekkir Svaninn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta