Hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju auglýst
Innanríkisráðherra heimilaði í gær starfshópi um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju að auglýsa útboð á hönnun ferjunnar. Ríkiskaupum hefur þegar verið falið að auglýsa útboðið miðað við tilteknar hönnunarforsendur.
Fjárheimildir til undirbúnings hönnunar og smíði ferju til siglinga milli lands og Eyja eru á þessu ári 250 milljónir króna. Útboðsgögn gera ráð fyrir smíði á tæplega 400 farþega ferju og með bílaþilfari fyrir 60 fólksbíla. Hönnun á að vera lokið fyrir árslok. Gert er ráð fyrir að þegar hönnun lýkur verði framhaldið afráðið svo sem útboð á smíði ferjunnar og fjármögnun hennar.