Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Unnið að framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu innviða í náttúrunni 

Ferðamenn á göngu.
Ferðamenn á göngu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sett af stað vinnu við gerð lagafrumvarps um heildstæða framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu í íslenskri náttúru í þágu ferðaþjónustu, og hefur áform um að leggja það fram á Alþingi sem fyrst. Verkefnið er hluti af áformum stjórnvalda um að taka heildstætt á málefnum ferðaþjónustu og uppbyggingu innviða í náttúrunni til að vernda sérstaka og viðkvæma náttúru landsins og koma í veg fyrir skemmdir og spjöll.

Að undanförnu hafa ráðuneyti umhverfis- og auðlinda og iðnaðar- og viðskipta unnið sameiginlega að þessu verkefni, m.a. í samráði við stóran hóp hagsmunaðila.  Í samráði ráðuneytanna er jafnframt unnið að útfærslum á leiðum til tekjuöflunar til að fjármagna betur þá vernd, uppbyggingu og rekstur sem framkvæmdaáætlun mun skilgreina til framtíðar.

Framkvæmdaáætluninni er ætlað að verða stjórntæki til framtíðar við að forgangsraða, samræma og skipuleggja vernd og uppbyggingu ferðamannastaða í náttúrunni. Hún felur í sér stefnumörkun til lengri tíma svo og tímasetta og áfangaskipta verkefnaáætlun til skemmri tíma þar sem ítarleg greining er á uppbyggingu ákveðinna svæða. Gert er ráð fyrir að að áætlunin taki til svæða á vegum hins opinbera svo sem þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða, en einnig til svæða í eigu sveitarfélaga og einkaaðila. Við þessa vinnu hefur m.a. verði litið til þess hvernig samgönguáætlun er uppbyggð og sett fram. Við gerð áætlunarinnar verður unnið í nánu samstarfi við skipulagsgerð sveitarfélaga og jafnframt er henni ætlað að falla að og verða hluti af landskipulagsstefnu stjórnvalda.

Það er afar mikilvægt að slík framkvæmdaáætlun liggi fyrir sem fyrst, m.a. til að afla góðrar yfirsýnar, samræma og forgangsraða verkefnum til uppbyggingar og verndar náttúru landsins. Ferðaþjónustan er orðin einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar og byggir að mestu á þeirri auðlind sem sérstæð íslensk náttúra er. Auðlindin þarf því að vera í lagi og tryggt að nýtingin sé sjálfbær, líkt og með hverja aðra auðlindanýtingu. Því þarf að taka skipulega á aðgerðum til verndar og uppbyggingar í þágu ferðaþjónustunnar og er þessari áætlun ætlað að gera það.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta