Vinnumarkaðurinn vill jafnari hlutföll kynja í störfum
Hátt í 100 manns sátu fund aðgerðahóps um launajafnrétti kynja á Grand Hótel Reykjavík í morgun þar sem rætt var um leiðir til að fjölga konum í hefðbundnum karlastörfum.
Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er gerð framkvæmdaáætlunar um uppbrot kynskipts vinnumarkaðar. Þetta var annar tveggja funda um þetta efni en á fundi 13. febrúar var rætt um karla í umönnunar- og kennslustörfum. Á dagskrá fundarins í gær voru framsögur sem fjölluðu um konur í verk- og tæknigreinum annars vegar og í störfum lögreglunnar hins vegar.
Jöfn tækifæri drengja og stúlkna
Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, hóf fundinn með ávarpi þar sem hún benti á að illa hefur gengið að eyða kynbundnum launamun en rannsóknir sýndu að uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar væri ein áhrifaríkasta leiðin til að draga um launamun kvenna og karla. Hún sagði að breytingar væru of hægfara í þessum efnum, það þurfi skýra framtíðarsýn og markvissar aðgerðir, tími aðgerða væri runninn upp: „Okkur hefur gengið erfiðlega að eyða kynbundnum launamun og þar hallar vissulega á konur. En við skulum velta fyrir okkur fleiri hliðum málsins en þeirri fjárhagslegu. Þetta snýst líka um jöfn tækifæri karla og kvenna til að mennta sig og velja sér starfsvettvang. Þessi hefðbundnu kvenna- og karlastörf sem við sjáum eins og hverja aðra staðreynd í ýmsum greinum stendur báðum kynjum fyrir þrifum og ganga gegn hagsmunum samfélagsins.“ Ráðherra lagði áherslu á að forsenda breytinga væri að brjóta upp staðalmyndir um það hvaða störf henti konum og hvaða störf henti körlum.
Vinnumarkaðurinn vill jafnara hlutfall kynjanna
Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, benti meðal annars á að þegar mikið ójafnræði er meðal kynja á vinnustöðum sé augljóslega ekki verið að nýta þá hæfileika sem völ er á hverju sinni. Hilmar Bragi ítrekaði að þessu væri hægt að breyta. Í umhverfis- og byggingaverkfræði hefur hlutfall kvenna aukist úr 10% í 40% á síðustu árum eftir að farið var í markvissar aðgerðir til að fjölga konum í deildinni. Hann benti jafnframt á að vinnumarkaðurinn kalli eftir fjölbreyttum hópi útskrifaðra nemenda úr ólíkum greinum verkfræðinnar til þess að sinna fjölbreyttum verkefnum.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri fjallaði um rannsókn embættis ríkislögreglustjóra um kynjatengsl og vinnumenningu innan lögreglunnar þar sem ástæður fyrir fæð kvenna og brottfalli þeirra úr starfi innan lögreglunnar voru kannaðar. Haraldur benti á að hlutföll kvenna og karla í Lögregluskólanum hafi snúist við en um áramótin fengu tólf konur inngöngu í skólann en einungis fjórir karlar.
Fyrirmyndir af sama kyni
Þátttakendur í pallborði sem komu úr háskólum, tækni- og sprotafyrirtækjum og frá Samtökum atvinnulífsins voru sammála um mikilvægi þess að stúlkur hafi góðar fyrirmyndir af sama kyni sem þær geta litið upp til á umræddu sviði. Nauðsynlegt væri að byrja snemma að styrkja stúlkur í þeirri trú að þær geti farið í hvaða nám sem er. Þá þurfi að huga að inntaki námsins, kennslufræði raungreina þurfi að taka mið af áhugasviði stúlkna og drengja þannig að inntak námsins höfði til beggja kynja.