Starfshópur um hreindýraeldi skipaður
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað starfshóp til að fjalla um hugmyndir um hreindýraeldi og hreindýraræktun sem nýja búgrein á Íslandi. Starfshópnum er falið að fjalla um málið frá öllum hliðum og að draga fram þau atriði sem gætu skipt máli fyrir villt hreindýr hér á landi, verndun þeirra og veiðar, búfjársjúkdóma og landbúnað og landnýtingu.
Hópurinn mun fara yfir áhrif þess að taka stóran hluta dýra úr stofni hreindýra til þess að koma upp hjörð eldisdýra og þess að sambærilegum fjölda eldisdýra verði skilað aftur í villtan stofn hreindýra. Skoða þarf fjölda atriða sem varða hreindýraeldi, meðal annars áhrif af breyttri landnýtingu og beitarálagi, áhrif á hreindýraveiðar og sjúkdóma, sjúkdómahættu og sjúkdómavarnir, hvaða áhrif hreindýraeldi hefði á arðgreiðslur til landeigenda og hvort greiðslur skuli koma fyrir afnot af hluta stofnsins, svo fátt sé nefnt.
Starfshópurinn er skipaður fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Bændasamtaka Íslands, Hreindýraráðs, Náttúrustofu Austurlands, Skotvís og Matvælastofnunar.
Starfshópurinn skal skila niðurstöðu og tillögum sínum eigi síðar en 15. desember 2014.