Dómar uppkveðnir árið 2013
| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |
Á árinu 2013 voru kveðnir upp tíu dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, þrír hæstaréttardómar, fimm héraðsdómar og tveir félagsdómar.
Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:
1. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. apríl 2013 í máli nr. E-2243/2012: A gegn íslenska ríkinu.
UPPSÖGN. NIÐURSKURÐUR. JAFNRÉTTI.
S sögðu A upp störfum og taldi A að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum með því að segja henni upp störfum fremur en öðrum hvorum þeirra karlmanna er störfuðu hjá stofnuninni. S töldu hins vegar að uppsögn A hefði verið nauðsynleg í ljósi mikils niðurskurðar á fjárframlögum til S. Kærunefnd jafnréttismála taldi að með uppsögn A hefði verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kom m.a. fram að S hefði ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á að málefnalegt mat hefði átt sér stað eða að málefnalegar ástæður að öðru leyti hefðu legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn A umfram þann starfsmann er gegndi starfi svæðisstjóra. Að þessu virtu og þeim samanburði á menntun og hæfni starfsmanna S var það álit nefndarinnar að S hefði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn A. A höfðaði bótamál gegn íslenska ríkinu í kjölfar álits kærunefndar jafnréttismála. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði m.a. að fyrir lægi bindandi úrskurður kærunefndar jafnréttismála þess efnis að við uppsögn A hafi S brotið gegn lögum nr. 10/2008. Af gögnum málsins varð enn fremur ekki ráðið að við uppsögnina hafi stjórn S ekki horft til þeirra skyldu sem á atvinnurekendum hvíla samkvæmt 1.mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldi dómurinn því fullnægt því skilyrði 31. gr laganna að S hafi við uppsögnina brotið af vanrækslu gegn lögunum og beri samkvæmt almennum reglum ábyrgð á tjóni sem A kann að hafa orðið fyrir vegna uppsagnarinnar. Héraðsdómur dæmdi því íslenska ríkið til greiðslu skaðabóta er nam þeim mismun á launum sem hún hefði haft hjá S, ef ekki hefði komið til uppsagnar, og þeirra launa og bóta sem hún naut frá 1. janúar 2011 til og með mars 2012. Að auki voru A dæmdar miskabætur vegna þess álitshnekkis sem uppsögnin hafði valdið A en við ákvörðun miskabóta var hins vegar horft til þess að hlutur A hafði verið réttur að miklu leyti með endurráðningu A til starfa hjá S.
2. Dómur Hæstaréttar frá 24. apríl 2013 í máli nr. 695/2012: M gegn Seðlabanka Íslands.
KJARARÁÐ. STJÓRNVALDSÁKVÖRÐUN. LAUN.
M var skipaður í embætti seðlabankastjóra og fór um laun og önnur starfskjör hans eftir ákvörðun bankaráðs S frá mars 2009. Með lögum nr. 87/2009 var m.a. gerð sú breyting á lögum nr. 36/2001 um SÍ, að vald til að ákveða laun og starfskjör seðlabankastjóra var fært undir Kjararáð að undanskildum rétti hans til biðlauna, eftirlauna o.fl. Jafnframt var gerð sú breyting á lögum nr. 47/2006 um Kjararáð að föst laun fyrir dagvinnu skyldu ekki ákvörðuð hærri en föst laun forsætisráðherra. Á grundvelli laganna tók Kjararáð ákvörðun 23. febrúar 2010 um laun og starfskjör seðlabankastjóra og voru þau lægri en þau sem kveðið var á um í ákvörðun bankaráðs frá mars 2009. Höfðaði M mál gegn S og krafðist þess að framangreind ákvörðun Kjararáðs yrði felld úr gildi. Taldi M að Kjararáði hefði ekki verið heimilt að skerða laun og starfskjör hans eftir skipun hans í embætti. Hæstiréttur vísaði m.a. til þess að lög nr. 87/2009 hefðu verið almenn að því leyti að þau ættu við hvort sem embættismenn hefðu verið skipaðir fyrir eða eftir gildistöku laganna. Að því gættu hvernig sakarefni málsins hefði verið afmarkað af hálfu M gæti ekki reynt á hvort réttur til launa, þegar í hlut ætti embættismaður með tímabundna skipun, væri varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ef svo væri hvort skerðing á þeim rétti með lögum nr. 87/2009 hefði gengið lengra en heimilt væri samkvæmt stjórnarskrárákvæðinu. Með vísan til þessa en að öðru leyti til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sýknu S.
3. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí 2013 í máli nr. E-2153/2012: X gegn Alþingi.
LAUSN VEGNA HEILSUBRESTS.
X starfaði við ræstingar hjá stefnda. Hinn 14. ágúst 2008 lagði X fram læknisvottorð frá heimilislækni sínum, þar sem kom fram að hún væri óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms. Hófst þá 360 daga veikindaréttur stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. X hóf þó störf að nýju 3. október 2008 í hlutastarfi, en samkvæmt mælingum stefnda nam starfshlutfall hennar þá 24,5%. X var skráð í veikindaleyfi frá 18. júní 2009, uns 360 daga veikindaréttur féll niður 9. ágúst 2009. Var X tilkynnt að ekki yrði um endurkomu að ræða til ræstingastarfa hjá A, nema sýnt væri fram á að hún hefði fulla starfshæfni. X lýsti sig reiðubúna til að snúa aftur í fullt starf. X var hins vegar sagt upp störfum frá og með 1. janúar 2010. X taldi að ákvörðun um uppsögn hafi verið ólögmæt stjórnvaldsákvörðun, sem hafi bakað henni tjón sem A beri bótaábyrgð á. Niðurstaða héraðsdóms var að A var heimilt að segja X upp störfum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. starfsmannalaga og grein 17.1.2 í kjarasamningi, þar sem kveðið er á um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Á uppsagnartíma fékk X greidd lausnarlaun samkvæmt kafla 12.4 í kjarasamningi. Fram komi í niðurstöðu héraðsdóms að ákvæði kjarasamnings um lausn frá störfum vegna heilsubrests hafi verið túlkuð svo, að ekki sé nauðsynlegt að bíða með lausn þar til starfsmaður hefur verið fjarverandi launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum, ef ljóst er samkvæmt vottorði læknis að starfsmaðurinn fullnægir ekki lengur kröfum um nauðsynlegt heilbrigði, sbr. grein 11.1 í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins um veikindarétt nr. 1/2007. Fyrir lágu ítarleg læknisfræðileg gögn til grundvallar ákvörðun um uppsögn. Þá hafði A heimilað X að vinna skert starf um lengri tíma, samhliða greiðslu veikindalauna, sbr. grein 12.2.10 í kjarasamningi. Féllst því héraðsdómur ekki á það með X að A hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar um að upplýsa mál og gæta meðalhófs, sbr. 10. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var ákvörðun um uppsögn byggð á málefnalegum grunni.
4. Dómur Félagsdóms frá 21. maí 2013 í máli nr. 2/2013: Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu v/Landspítala.
VEIKINDI BARNA. VAKTAÁLAG VEGNA BUNDINNA VAKTA.
L krafðist þess að viðurkennt yrði að Í væri skylt að greiða félagsmönnum L, sem starfa við Landspítalann, vaktaálag vegna bundinna vakta, sem þeir forfallast frá vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki komið við og fari slíkar fjarvistir ekki umfram 96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf á hverju almanaksári. L vísaði til ákvæðis í gr. 9.8.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar. Í mótmælti túlkun L á ákvæði gr. 9.8.1. Taldi Í að með vaktaálagi samkvæmt reglubundinni varðskrá/vaktskrá í kjarasamningi aðila væri eingöngu átt við vaktir samkvæmt gr. 4.6.2 en ákvæði gr. 9.8.1 næði ekki yfir gæsluvaktir og bundnar vaktir sem komi til vegna vinnutilhögunar lækna með lækningaleyfi utan dagvinnu á sjúkrahúsum. Vísaði Í m.a. til forsögu ákvæðisins í kjarasamningum stéttarfélaga opinberra starfsmanna. Í niðurstöðu dómsins kom m.a. fram að enga tilgreiningu væri að finna í ákvæði gr. 9.8.1 um að það tæki ekki til gæsluvakta eða svokallaðra bundinna vakta. Í bar sönnunarbyrðina fyrir því að sjónamið um hefð eða venju leiddi til þess að umrætt ákvæði yrði skilið með þeim hætti sem Í byggði á en ekki verða með beinum hætti leidd af orðalagi ákvæðisins. Var það mat dómsins að sú sönnun hefði ekki tekist. Var viðurkenningarkrafa L því tekin til greina.
5. Dómur Félagsdóms frá 30. maí 2013 í máli nr. 4/2013: Flugvirkjafélag Íslands gegn íslenska ríkinu v/Flugmálastjórnar Íslands.
SAMNINGSAÐILD.
F krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að það færi með samningsaðild sex félagsmanna F hjá Flugmálastjórn Íslands vegna starfa þeirra sem flugvirkja hjá stofnuninni á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1986, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. s.l. F benti á að þær fjöldatakmarkanir, sem um getur í 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986, hefði engin áhrif til takmörkunar á rétti F, þótt heildarfjöldi félagsmanna F í starfi hjá ríkinu sé undir 40. Vísaði F að þessu leyti til dómafordæmis Félagsdóms í máli nr. 9/1999, þar sem fjöldatakmörkunum 3. tl. 5. gr. var vikið til hliðar og réttur stéttarfélags til að fara með samningsaðild viðurkenndur, m.a. með vísan til meginreglunnar um samningsfrelsi og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í taldi skipta meginmáli við úrlausn málsins að líta yrði til þess að F væri stéttarfélag sem starfaði á grundvelli lag nr. 80/1938. Til að geta öðlast samningsrétt samkvæmt lögum nr. 94/1986 þurfi stéttarfélag að uppfylla tiltekin skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986. Í taldi að F uppfyllti ekki þessi skilyrði og var það meginástæðan fyrir því að Í hafði hafnað að gera kjarasamning við F vegna flugvirkja sem starfa hjá Flugmálastjórn. Í niðurstöðu dómsins kom fram að ljóst væri að F uppfyllti skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 um að félag taki til a.m.k. 2/3 starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun. Hins vegar var ljóst að félagsmenn F, sem undir lögin heyra, voru færri en 40 í heild. Við mat á því hvort fallist verði á samningsrétt F við ríkið, þrátt fyrir fjöldatakmarkanir í ákvæðinu, taldi dómurinn að líta yrði til þess að í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995, sé kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi og er stéttarfélag þar sérstaklega getið. Í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 segir jafnframt m.a. að mönnum sé rétt að stofna og ganga í stéttarfélag til verndar hagsmunum sínum. Hefur verið talið að sá réttur taki ekki aðeins til þess að vera félagsmaður, heldur einnig til þess að láta til sín taka í starfsemi félagsins og þar með fela stéttarfélagi sínu umboð til að gera kjarasamning. Telst það til grundvallarhlutverks stéttarfélags að annast samningsfyrirsvar félagsmanna sinna við kjarasamningsgerð. Verður hér einnig að líta til þess að frávik frá meginreglu samningsréttarins um samningsfrelsi aðila verði að skýra þröngt, auk þess sem allan vafa verður að skýra til samræmis við stjórnarskrárvarinn rétt manna. Var það niðurstaða Félagsdóms að fallast á það með F að víkja bæri fjöldatakmörkunum 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 til hliðar í því tilviki sem hér var til úrlausnar og viðurkenna að F færi með samningsaðild fyrir þá sex flugvirkja sem störfuðu hjá Flugmálastjórn Íslands
6. Dómur Hæstaréttar frá 6. júní 2013 í máli nr. 131/2013: Íslenska ríkið gegn H.
BREYTING Á STÖRFUM. NIÐURLAGNING. BIÐLAUN.
H, deildarstjóri mæðraverndar, krafðist þess að viðurkennt yrði að hún ætti, samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í stml., rétt til skaðabóta úr hendi HSS er næmi launum í tólf mánuði vegna niðurfellingar stöðu hennar. Í hélt því fram að staða H hefði ekki verið lögð niður heldur hefði HSS nýtt sér rétt til breytinga á starfi og verksvið H skv. 19. gr. stml. og hefði tilkynnt H fyrirhugaðar breytingar á stöfum með hæfilegum fyrirvara, að gættum fresti til handa H til að tjá sig um þær. HSS hafi einungis ætlað að gera breytingar á störfum og verksviði H vegna skipulagsbreytinga hjá HSS. Áherslur í starfsemi stofnunarinnar hefðu breyst þegar hagræða hafi þurft í starfsemi HSS m.a. vegna niðurskurðar almennt í heilbrigðisþjónustu, lokunar skurðstofu og þess að fæðingum hefði fækkað á sjúkrahúsinu. Fólust breytingarnar í því að sett hafi verið á fót ný sameinuð deild mæðravendar og fæðinga. Forráðamenn HSS tóku þá ákvörðun við skipulagsbreytingarnar að ráða nýjan starfsmann til að gegna starfi deildarstjóra á nýrri deild og hafi nýtt starf deildarstjóra á sameinaðri deild verið auglýst. H lét af störfum hjá HSS þegar nýr deildarstjóri sameinaðrar deildar tók til starfa. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að störf við mæðravernd hefðu ekki verið lögð af við HSS með skipulagsbreytingunum heldur færð ásamt starfsmanni við mæðravernd í nýja deild. Málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki breytingunum, sem hefðu ekki varðað persónu H. Þótt lagt yrði til grundvallar að H hefði mátt líta svo á að henni hefði verið ætlað að ganga til almennra starfa sem ljósmóðir eftir breytingarnar yrði að líta til þess að H væri menntuð til slíkra starfa, sem hún hefði gegnt um árabil og hefði henni borið að halda við þekkingu sinni á þeim og faglegri færni. Þá var talið rúmast innan heimilda 19. gr. laga nr. 70/1996 að H var með breytingunum svipt mannaforráðum, enda hefðu þau verið óveruleg. Loks var vísað til þess að mánaðarlaun í þeim launaflokki sem hún hefði átt að færast í hefðu verið hærri en laun í þeim flokki sem henni var áður skipað í. Með vísan til þessa var ekki fallist á með H að í breytingunum hefði falist að starf hennar hefði verið lagt niður eða að þær stönguðust með öðrum hætti á við 19. gr. laga. nr. 70/1996. Var Í því sýknað af kröfu H.
7. Dómur Hæstaréttar frá 13. júní 2013 í máli nr. 121/2013: Á gegn Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
UPPSÖGN.
Á, hjúkrunarfræðingur, var sagt upp störfum. HSV hélt því fram að tilefni starfsloka Á mætti rekja til þeirrar forsendu sem legið hefði til grundvallar ráðningu Á sem deildarstjóra starfsmannaheilsuverndar, vegna verksamnings HSV og N, og uppbyggingu faglegrar öryggis- og starfsmannaheilsuverndar hjá N. Við stofnun ráðningarsambands Á við HSV hafi Á verið gert það ljóst að ein af meginforsendum ráðningar Á væri sú að Á ætti að sinna starfsmannaheilsuvernd hjá N á grundvelli samnings HSV við N. Í auglýsingu um starfið hafi komið fram að óskað væri eftir hjúkrunarfræðingi til að sinna starfsmannaheilsuvernd á starfssvæði HSV. Í viðræðum aðila í aðdraganda ráðningar Á í starfið hafi komið skýrt og ótvírætt fram að um væri að ræða starf við starfsmannaheilsuvernd hjá N til að uppfylla samningsskyldur HSV samkvæmt verksamningi. Grundvöllur ráðningar Á hafi verið skýr og ótvíræður og því ekki nauðsynlegt að geta þess sérstaklega í ráðningarsamningi að þjónustusamningur HSV við N væri grundvöllur ráðningar Á. Er N ráðgerði að segja upp þjónustusamningi var Á tilkynnt að ekki yrði hjá því komist að segja Á upp störfum. Var uppsögn Á byggð á 43. gr. stml. Á taldi að uppsögnin væri ólögmæt þar sem HSV hefði borið að fara eftir 1. mgr. 44. gr. stml. og veita henni áminningu áður en til uppsagnar kæmi. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að í auglýsingu um starf Á hefði þess ekki verið getið að það væri fyrirfram ætlað fyrir þjónustu við tiltekinn viðsemjanda og ekki kæmi heldur fram um það í ráðningarsamningi Á. Hefði HSV þó verið unnt að haga gerð samningsins svo að hann væri til ákveðins tíma og hann tengdur verkefnum hjá N. Þvert á móti hefði í samningnum komið fram að ráðningin væri til frambúðar. Uppsögn Á ætti rætur að rekja til ástæðna sem tilgreindar væru í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á hefði hvorki verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun hefði verið tekin um uppsögn né hefði henni verið veitt áminning. Hefði uppsögn Á því verið ólögmæt. Fallist var á að Á ætti rétt til bóta vegna fjártjóns og miska.
8. Dómur Héraðsdóms Vesturlands frá 2. júlí 2013 í máli nr. E-148/2012: G gegn Fjölbrautaskóla Vesturlands.
LAUNAFLOKKSRÖÐUN. STOFNANASAMNINGUR.
G, kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands, var fastráðinn haustið 2007 eftir að hafa verið ráðinn tímabundið sem leiðbeinandi. Er G leitaði eftir launaleiðréttingu á grundvelli ákvæða í stofnanasamnings var þeirri málaleitan hafnað af skólameistara FVA. Í bréfi skólameistara kom fram sú skýring að launaflokkaröðun frá 2007 hafi innifalið starfsaldurshækkanir, sem G ella hefði átt rétt á 1. ágúst 2009 og 1. ágúst 2010. Af því tilefni ritaði G samstarfsnefnd KÍ og FVA erindi sem tekið var fyrir á fundi nefndarinnar í nóvember 2008. Var erindi G hafnað af nefndinni. Í tölvupósti skólameistara til formanns Félags framhaldsskólakennara var það orðað þannig að G hefði notið þessara hækkana „heldur fyrr en hann átti strangt til tekið rétt á“. Í niðurstöðu dómsins kom fram að engan fyrirvara var að finna í ráðningarsamningi um að röðun G hefði verið miðuð við að hann væri við þessa ákvörðun að fá laun ákvörðuð samkvæmt væntanlegum hækkunum eftir tveggja ára starf sem framhaldsskólakennari með leyfisbréf og níu ára starf við kennslu skv. gr. 4.1 og 4.2 í samningi samstarfsnefndar FVA. Þá kom fram í skýrslu þáverandi skólameistara sem undirritaði samninginn f.h. FVA að hann myndi ekki hvernig röðun G var ákvörðuð. Kom einnig fram hjá honum að það þekktist í stofnunni að menn fengu launagreiðslur umfram samninga en í þessu tilviki lægi ekkert skriflegt fyrir um rök fyrir röðun G enda þótt venjan hefði verið að tiltaka hvers vegna röðun væri umfram samninga. Dómurinn leit svo á að það hefði staðið FVA nær að taka af tvímæli um þetta þegar við gerð samningsins og leit dómurinn svo á að ljóst mátt vera af samningi aðila að G hefði verið raðað umfram lágmarksröðun og að FVA væri bundinn við þá grunnröðun G. Féllst dómurinn því á það með G að hann ætti kröfu til launa til viðbótar samkvæmt gr. 4.1 og 4.2.
9. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. desember 2013 í máli nr. E-898/2013: S gegn Landspítala.
VANGREIDD LAUN. RÁÐNINGARSAMNINGUR. LAUNAFLOKKSRÖÐUN.
S er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir en var, er atvik máls þessa urðu, hjúkrunarfræðingur í ljósmóðurnámi. Í tengslum við nám sitt réð S sig sem hjúkrunarfræðing til L. Samkvæmt ráðningarsamningi var starfsheiti S hjúkrunarfræðingur og var starfshlutfall sagt vera 80%. Við vinnutímaskipulag er ritað reynslutími. Laun skyldu greiðast samkvæmt launaflokki 661.021. Um tímabundna ráðningu var að ræða til 10 mánaða, með upphafsdegi 31. maí 2011 en lokadegi 31. mars 2012. Á ráðningarsamninginn er handritað: „Sjá meðfylgjandi bréf um fyrirvara við undirritun og efni ráðningasamnings.“ S kvaðst hafa afhent L það bréf, sem vísað er til, sama dag og ritað var undir ráðningarsamning. Í umræddu bréfi kemur fram að S geri fyrirvara við undirritun sína á ráðningarsamninginn og ákvæði samningsins um kaup og kjör: „Undirrituð hefur gert athugasemdir og sett fram kröfur á hendur LSH um að undirritaðri verði greitt samkvæmt hærri launaflokksröðun í verknámi og fái greitt fyrir allan námstímann og þ.m.t. þær vikur af verknámi sem að LSH hefur gert ráð fyrir að verði launalausar, en það greiðslufyrirkomulag samræmist ekki því greiðslufyrirkomulagi sem viðhaft er í verknámi hjúkrunarfræðinga í skurð- og svæfingarnámi. Eru kröfur þessar og launamál ljósmæðranema nú til skoðunar hjá LSH. Hvort sem síðar kann að koma til breytinga á verklagsreglum LSH hvað framangreindar launagreiðslur og greiðslufyrrikomulag varðar eða ekki, áskilur undirrituð sér rétt til þess að krefja LSH um greiðslu bóta vegna þeirrar skerðingar sem hún mun þurfa að sæta vegna þeirrar skerðingar sem núverandi greiðslufyrirkomulag hefur í för með sér í samanburði við annað verknám, sbr. framangreint.“ L hafnaði kröfu S um vangreidd laun og í svari L til velferðarráðuneytisins kemur fram sú afstaða L að honum sé heimilt að greiða ljósmóðurnemum í diplómanámi laun samkvæmt launaflokki 021. Fram kom í svari L að sú rekstrarlega forsenda, sem ákvörðun um mismunun í greiðslum til annars vegar ljósmóðurnema og hins vegar nema í skurð- og svæfingahjúkrun byggði á, væri yfirvofandi skortur á skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum. Því yrði að bjóða nemum í skurð- og svæfingahjúkrun „ívið betri kjör en öðrum í þeirri viðleitni að auka nýliðun“, eins og segir í svarinu. Það var niðurstaða dómsins að L bæri að greiða S vangreidd laun í samræmi við framlagðan ráðningarsamning.
10. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. desember 2013 í máli nr. E-1783/2013: Þ gegn íslenska ríkinu vegna Skattrannsóknarstjóra ríkisins.
UPPSÖGN VEGNA NIÐURSKURÐAR. FYRIRHUGUÐ ÁMINNING. SKORTUR Á LAGAHEIMILD.
Þ er löggiltur endurskoðandi að mennt og hóf störf hjá S í septembermánuði 2006 og var fastráðinn í nóvember 2007. Er Þ var ráðinn til starfa störfuðu starfsmenn embættisins á tveimur sviðum, rannsóknarsviði og lögfræðisviði. Hvoru sviði fyrir sig var stýrt af forstöðumanni. Þ var ráðinn á rannsóknarsvið en næsti yfirmaður hans var skattrannsóknarstjóri. Enginn annar starfsmaður var með sambærilega menntun og Þ. Samkvæmt starfslýsingu Þ var honum einkum ætlað að „finna mál“, það er að sérþekking hans yrði nýtt til að finna úrtök eða verkefni til rannsóknar hjá embættinu og taka þátt í rannsóknum einstakra mála eftir því sem þörf væri á hverju sinni þvert á rannsóknarhópa embættisins. Launakjör Þ tóku mið af því að um væri að ræða endurskoðanda og voru greiðslur til hans þann tíma er hann starfaði hjá embættinu sambærilegar greiðslum til æðstu yfirmanna embættisins og því hærri en laun annarra starfsmanna. Á árinu 2010 var sett á fót nýtt svið, svokallað „stoðsvið“ til viðbótar þeim tveimur sviðum sem fyrir voru. Þar skyldi annars vegar fara fram greining einstakra mála með tilliti til ætlaðra brota og gerð aðgerðaráætlana vegna fyrirhugaðra rannsókna. Hins vegar var starfsmönnum þess ætlað að aðstoða rannsóknarmenn á sviðum þar sem sérhæfðrar þekkingar væri þörf, þvert á rannsóknarteymi og svið. Við þessar breytingar var starf endurskoðanda fært undir nýtt stoðsvið. Þá voru ráðnir til starfa tveir sérfræðingar, lögfræðingur með sérþekkingu á sviði alþjóðlegs skattaréttar og viðskiptafræðingur með reynslu af fjármálastjórnun. Vegna þessarar breytingar var starfslýsing Þ yfirfarin og endurskoðuð. Í júní 2012 var Þ tilkynnt um fyrirhugaða áminningu í samræmi við 21. gr. laga nr. 70/1996. Tilefni hennar var að hann hefði með bréfi til fjármálaráðherra og afriti til forsætisráðherra greint frá rannsókn embættis S á máli aðila sem sætt hafði rannsókn hjá embættinu. Í bréfinu væri m.a. greint frá nafni viðkomandi aðila, niðurstöðu rannsóknarinnar og meðferð málsins í kjölfar hennar. Þá væri í bréfinu vitnað til tölvupósts sem hann sendi ríkisskattstjóra varðandi umrætt mál. Með því að greina þessum aðilum frá málinu væri Þ að brjóta þagnarskyldu og tiltekin lagaákvæði nefnd í því sambandi. Honum var gefinn andmælaréttur sem hann nýtti sér. Þar benti Þ á að skv. tekjuskattslögum hefði ráðherra eftirlit með því að ríkisskattstjóri og S ræktu skyldur sínar. Hann hefði rétt til að fá til athugunar skattframtöl og gögn varðandi þau og krefja framangreinda aðila skýringa á öllu því er framkvæmd laganna varðaði. Í ágúst 2012 var Þ tilkynnt að fallið hefði verið frá fyrirhugaðri áminningu með vísan til andmæla hans og þess hvernig málið lægi fyrir að öðru leyti. Í september 2012 var Þ afhent uppsagnarbréf og sagt upp störfum hjá embættinu með þriggja mánaða fyrirvara. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnartíma. Engar skýringar fylgdu uppsögninni. Bent var á að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni, sem hann og gerði. Í rökstuðningi S sagði að ástæðu uppsagnarinnar væru að rekja til hagræðingar og endurskipulagningar sem nauðsyn krefði að í væri farið vegna fram komins fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Næmi almennur niðurskurður á fjárheimildum embættisins vegna aðhaldsmarkmiða stjórnvalda 1% eða 5 milljónum. Til viðbótar væri ekki gert ráð fyrir að embættið fengi viðbótarfjárveitingu til að sinna þeim verkefnum sem fyrir lægju hjá stofnuninni nema sem næmi hluta af því sem verið hefði síðastliðin tvö ár. Samkvæmt frumvarpinu væri gert ráð fyrir að lækkun næmi 36 milljónum. Alls væri því fyrirséð að fjárheimildir embættisins mundu lækka um 41 milljón króna og var vísað í frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Í ljósi samdráttar og hlutverks embættisins hafi niðurstaða S orðið sú að réttast væri að leggja af starf endurskoðanda. Í niðurstöðu dómsins segir að svo sem fram kemur í gögnum málsins fékk Þ bréf frá S þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða áminningu í samræmi við 21. gr. laga 70/1996. Ástæða hinnar fyrirhuguðu áminningar væri sú, að Þ var talinn hafa brotið þagnarskyldu með því að greina frá nafni aðila er var í rannsókn, niðurstöðu rannsóknarinnar svo og meðferð málsins í kjölfar rannsóknarinnar, allt í bréfi í maí 2012 til fjármálaráðherra með afriti til forsætisráðherra. Í lok tilkynningar S var Þ gefinn frestur til andmæla. Þá var tekið fram að ef starfsmaður bætti ekki ráð sitt eftir að hafa verið veitt áminning kynni það að leiða til þess að honum yrði sagt upp störfum, samanber 44. gr. sömu laga. Þ sendi andmæli sín til S í júní 2012. Fyrir dómi upplýsti skattrannsóknarstjóri að hún hefði fengið boðsent trúnaðarbréf frá fjármálaráðuneytinu vegna bréfs Þ. Því hafi hún svarað í júní 2012. Í kjölfarið hafi hún ákveðið að bíða með það að taka ákvörðun um hvort áminning yrði veitt eða ekki, á meðan málið væri í athugun hjá fjármálaráðuneytinu. Hún kvað að eftir sumarfrí hafi ekki verið að sjá að framhald yrði á málinu hjá fjármálaráðuneytinu og hafi hún því í ágúst 2012 tilkynnt Þ að fallið hafi verið frá fyrirhugaðri áminningu. Þá upplýsti skattrannsóknarstjóri að í júlí 2012 hefði hún fengið símtal frá fjármálaráðuneytinu um að fjárveitingar embættisins yrðu lækkaðar. Hún kveðst hafa átt fund með ráðherra í júlí 2012 um að fá frekari fjárveitingar og þá hafi verið ljóst að svo yrði ekki. Í kjölfarið kveðst hún hafa farið að íhuga hvernig hægt væri að mæta þessum lækkunum. Skattrannsóknarstjóri lagði ríka áherslu á það í framburði sínum að ekkert samband væri milli hinnar fyrirhuguðu áminningar og uppsagnar Þ vegna hagræðingar í rekstri embættisins. Hinn 11. september 2012 var fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 lagt fram á Alþingi og voru fjárveitingar til embættisins tilgreindar 254,2 millj. og er ágreiningslaust að um 41 millj. kr. lækkun var að ræða frá fyrri fjárveitingu. Hinn 17. september 2012 fékk Þ uppsagnarbréf. Uppsögnin var með þriggja mánaða fyrirvara og var vinnuframlag stefnanda á uppsagnartímabili afþakkað. Starfslok stefnanda hjá S voru því 31. desember 2012. Hinn 28. nóvember 2012 var nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar lagt fram á Alþingi og kom þar fram að fjárveitingar til S yrðu hækkaðar um 36 millj. króna og varð fjárveiting til embættisins því rúmar 290 millj. svo sem fram kemur í fjárlögum sem samþykkt voru 20. desember 2012. Þá átti embættið ónýtta fjárheimild, um það bil 20 millj. kr. Þannig varð í raun óveruleg lækkun á fjárveitingum til embættisins. Í framburði skattrannsóknarstjóra fyrir dómi kom fram að þegar ljóst var að fjárheimildir gengju til baka að einhverju leyti hafi verið skoðað hvort ráða ætti Þ aftur og hafi hún ásamt forstöðumönnum hjá embættinu komist að þeirri niðurstöðu að gera það ekki. Um tímabundna ráðstöfun á fjárveitingum væri að ræða. Þrátt fyrir þessa auknu fjárveitingu væri halli á embættinu. Ákvörðun um uppsögn þyrfti þá að taka seinna. Aðspurð kvað skattrannsóknarstjóri, að hún hefði beðið með að segja Þ upp starfi sínu, hefði hún vitað, við uppsögnina, að embættið fengi 290 millj. króna fjárveitingu. Fram kemur í dómnum að í starfsmannalögunum nr. 70/1996 séu ekki veittar leiðbeiningar um það hvað eigi að ráða vali forstöðumannsins við þær aðstæður að segja þurfi upp starfsmanni. Ákvörðun forstöðumanns er því að meginstefnu til komin undir mati hans. Þó eru valinu settar skorður af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, þ.e. að valið verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum er taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem viðkomandi stofnun ber að vinna að. Þá ber við uppsögn starfsmanns einnig að gæta að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Þegar um uppsögn starfsmanns er að ræða vegna hagræðingar í rekstri þurfa aðstæður að vera þannig að þær gefi tilefni til svo íþyngjandi aðgerða. Í dómnum kemur fram að eins og mál þetta liggur fyrir verði að líta til þess að Þ fékk bréf frá S um fyrirhugaða áminningu. Ekkert heyrðist síðan frá S fyrr en tveimur mánuðum eftir andmælabréf Þ og var þá tilkynnt að ekkert yrði af áminningunni. Í millitíðinni fékk S upplýsingar um að fjárheimildir til embættisins myndu lækka. Sex dögum eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram, þ.e. 17. september 2012, fékk Þ uppsagnarbréf þar sem tilkynnt var að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnartímabili. Dómurinn taldi að eðlilegt hefði verið að bíða með uppsögnina, sem væri verulega íþyngjandi fyrir Þ, að minnsta kosti fram að mánaðamótum og þó fyrst og fremst til þess tíma er ljóst var hverjar fjárveitingar embættisins yrðu. Taldi dómurinn að þessi asi renndi stoðum undir það að tenging hafi verið milli hinnar fyrirhuguðu áminningar og uppsagnarinnar. Væri uppsögnina í raun að rekja til hagræðingar í rekstri embættisins vegna lægri fjárveitingar er ljóst að sú forsenda átti ekki lengur við eftir samþykkt fjárlagafrumvarpsins, það er í lok uppsagnartímabilsins. Þó var Þ ekki boðið starfið aftur. Þegar á allt þetta er litið var það niðurstaða dómsins að lagaheimild skorti fyrir uppsögn Þ og því átti Þ rétt til bóta. Þá féllst dómurinn á kröfu Þ um miskabætur með þeim rökum að framgangur S við slit á ráðningarsamningnum fæli í sér brot á ákvæðum stjórnsýslulaga, væri meiðandi í garð Þ og fæli í sér ólögmæta meingerð gagnvart honum. Af hálfu íslenska ríkisins hefur dómi þessum verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 172/2014.