Fordæma hernaðaraðgerðir á Krímskaga
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að Rússar láti umsvifalaust af öllum hernaðaraðgerðum í Úkraínu og fari að alþjóðalögum. Hann segir það skýra kröfu að rússnesk stjórnvöld leiti sátta með friðsamlegum hætti í stað þess að grípa til vopnaðrar íhlutunar.
Fastaráð Atlantshafsbandalagsins kom saman til sérstaks fundar í dag til að ræða ástandið á Krímskaga. Í kjölfar fundarins var gefin út yfirlýsing þar sem hernaðaraðgerðir Rússa eru fordæmdar og lýst þungum áhyggjum yfir ákvörðun rússneska þingsins sem heimilar hernaðaríhlutun rússneska hersins í Úkraínu.
Í yfirlýsingunni segir að hernaðaraðgerðir rússnesks liðsafla í Úkraínu brjóti í bága við alþjóðalög og gangi m.a. gegn þeim viðmiðum sem starf NATO-Rússlandsráðsins byggist á. Rússnesk stjórnvöld eru hvött til að draga úr spennu á svæðinu og virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Fastaráðið hvetur til þess að deiluaðilar leiti samstundis friðsamlegrar lausnar, á tvíhliða grundvelli og með viðeigandi alþjóðlegum stuðningi og aðkomu eftirlitsaðila á vegum öryggisráðs SÞ og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
Þá hvetur fastaráðið til pólitísks samráðs á forsendum lýðræðis og mannréttinda sem taki mið af sjónarmiðum allra íbúa Úkraínu.