Ráðherra á norðurslóðaráðstefnu The Economist
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í morgun þátt í norðurslóðaráðstefnu The Economist í London. Í ræðu sinni fjallaði ráðherra um málefni norðurslóða, bæði þá þróun sem á sér stað á alþjóðavettvangi, sem og aukin tækifæri og möguleika sem Ísland stendur frammi fyrir þegar kemur að aukinni uppbyggingu á norðurslóðum.
Í máli ráðherra kom fram áhersla á að gæta þyrfti vel að íbúum svæðisins, umhverfismálum og vistkerfi norðurslóða þegar að framtíðaruppbygging væri skipulögð og hrint í framkvæmd.
Sagði Gunnar Bragi Ísland vel í stakk búið til að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast þegar kemur að uppbyggingu á Grænlandi, auknum siglingum á siglingaleiðum á norðurslóðum og mögulegri olíuleit á Drekasvæðinu. Sterkir innviðir og atvinnulíf á Íslandi séu forsenda fyrir að slík uppbygging geti átt sér stað á næstu árum og að þær forsendur séu fyrir hendi.
„Aukinn alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum endurspeglast í aukinni þátttöku ríkja utan norðurslóða í þeirri uppbyggingu sem er hafin og þeirri sem framundan er“ sagði ráðherra í ræðu sinni.
Ráðstefna The Economist um norðurslóðamál er nú haldin í annað sinn. Sjá nánar dagskrá ráðstefnunnar.