Þrír ólíkir aðalframkvæmdastjórar
Sendiráðið í Paris annast fyrirsvar Íslands gagnvart þremur alþjóðastofnunum, sem hver um sig hafa mikla þýðingu fyrir íslenska hagsmuni, til viðbótar við það að vera sendiráð gagnvart níu ríkjum. Stofnanir eru gjörólíkar sem og framkvæmdastjórarnir sem leiða þær. Enda þótt þessir stjórnendur séu auðvitað bara þrír einstaklingar með fjölda fagfólks og sérþekkingu sér að baki er það yfirleitt svo að eftir höfðinu dansa limirnir.
Angel Gurría, 64 ára Mexíkói, stýrir Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er menntaður hagfræðingur. Gurría er fyrrverandi utanríkisráðherra og fjármálaráðherra og var eitt árið valinn besti fjármálaráðherra heims. Hann hefur náð miklum árangri í að koma boðskap stofnunarinnar á framfæri. Hann hefur metnað til að OECD taki ný og erfið viðfangsefni sem upp koma í ört breytilegum heimi. Gurría er afar kraftmikill og sannfærandi er hann brýnir stjórnvöld í aðildarríkjunum 34 til að framkvæma umbætur sem oft eru óvinsælar, en nauðsynlegar til að auka hagsæld. Gurría heimsótti Ísland í september síðastliðnum og prédikaði meðal annars ávinning af aukinni samkeppni. Hann hitti meðal annars forsætis-, fjármála-, iðnaðar- og menntamálaráðherra. Í framhaldi af þessari heimsókn hafa einstök ráðuneyti leitað eftir enn frekara samstarfi við OECD. Rúmlega 2000 manns starfa hjá OECD, þar af fjórir Íslendingar.
Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins Thorbjörn Jagland er 64 ára , fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og núverandi formaður friðarverðlaunanefndar Nobels. Jagland virkar nánast hlédrægur en hefur með mikilli þrautseigju og ríkum samstarfsvilja tekist að gera margs konar breytingar á útgjöldum og starfsemi Evrópuráðsins. Aðildarríkin eru 47 talsins og starfsmenn um 2000, þar af fimm Íslendingar. Jagland hefur lagt áherslu á að aðlaga Evrópuráðið að nýjum tímum. Hefur hann stýrt þessu umbótastarfi og skipulagsbreytingum af sannfæringu og í sátt við starfsfólkið. Hefur honum m.a. tekist að fækka málum sem bíða meðferðar í Mannréttindadómstól Evrópu um helming sem er mikilvæg réttarbót en dómstóllinn er ein af meginstoðum mannréttindaverndar í Evrópu. Jagland sem hefur verið einarður í að benda á nauðsynlegar úrbætur til að tryggja réttarríki hjá öllum aðildarríkjunum berst nú fyrir endurkjöri þar sem skipunartími hans rennur brátt út.
Irena Bokova, 62 ára Búlgari, er aðalframkvæmdastjóri Menningar,- mennta-, og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Hún er menntuð í alþjóðasamskiptum, fyrrverandi utanríkisráðherra Búlgaríu og sendiherra í Frakklandi. Bokova, sem er fyrsta konan til að gegna þessu mikilvæga hlutverki, hefur þurft að stýra UNESCO í gegnum mikið umbreytingaskeið. Þegar aðild Palestínu var samþykkt 2011 hættu Bandaríkjamenn að greiða til stofnunarinnar með vísan til laga sem banna bandarískum stjórnvöldum að greiða til samtaka sem Palestína á aðild að. Þannig missti stofnunin 22% af fjárveitingum sínum sem var gríðarlegt högg. Starfsmenn hefur síðan verið fækkað úr 1850 í 1400 (enginn Íslendingur starfar í UNESCO). Þessar og ýmsar fleiri hagræðingarráðstafanir hefur hinni lágmæltu og háttprúðu Bokova tekist að framkvæma án neinna alvarlega mótmæla eða vinnustöðvunar hjá UNESCO. Heyrst hefur fleygt að hún komi jafnvel til greina sem næsti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar fá tækifæri til að kynnast henni fljótlega því hún er væntanleg í opinbera heimsókn til Íslands í lok maí. Þar mun hún ávarpa tungumálaráðstefnu og heimsækja stofnun Vigdísar Finnbogadóttur sem hefur hlotið þann heiður að mega kenna sig við UNESCO. Þess má einnig geta að Vigdís er velgjörðasendiherra UNESCO fyrir tungumál.
Undirrituð er eini sendiherrann í Frakklandi sem sinnir öllum þessum þremur stofnunum og ber ég þær því oft saman bæði varðandi vinnubrögð og eins sjálfa framkvæmdastjórana. Stundum hef ég spurt mig hvernig stofnanirnar myndu breytast ef framkvæmdastjórarnir hefðu stólaskipti. Sjálf starfaði ég sem aðstoðarframkvæmdastjóri OECD með öðrum aðalframkvæmdastjóra en Gurría og hef því samburðinn milli þeirra hjá sömu stofnun. Hlutverk leiðtogans má aldrei vanmeta, enda þótt margar hendur og hugar myndi mannauð þessara stofnana.
Berglind Ásgeirsdóttir er sendiherra í París