Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Áskoranir í heilbrigðismálum kalla á aukið samstarf Norðurlandaþjóða

Bo Könberg og Kristján Þór Júlíusson. Mynd/Anton Brink Hansen/norden.org
Bo Könberg og Kristján Þór Júlíusson. Mynd/Anton Brink Hansen/norden.org

Bo Könberg, fyrrverandi ráðherra í Svíþjóð, fundar á næstunni með heilbrigðisráðherrum allra Norðurlandanna í tengslum við tillögugerð um samstarf þjóðanna á sviði heilbrigðismála sem hann vinnur að fyrir Norrænu ráðherranefndina. Könberg hitti í dag Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra til að ræða um áherslur Íslands í samstarfinu.

Verkefni Könbergs felst í því að skrifa óháða skýrslu um hvernig þróa megi og efla norrænt samstarf á sviði heilbrigðismála á næstu 5-10 árum. Undanfarna mánuði hefur hann fundað með embættismönnum og stjórnendum stofnana á sviði heilbrigðismála á Norðurlöndunum til að kanna hvaða verkefni þykja mest aðkallandi og hvernig þjóðirnar geta haft ávinning af samstarfi sín á milli til að takast á við þau með sem bestum árangri. Framundan er fundaröð Könbergs með heilbrigðisráðherrum Norðurlandanna en hann var áður búinn að ræða við þá á fundum sl. haust.

Allar Norðurlandaþjóðirnar standa frammi fyrir sívaxandi álagi á heilbrigðiskerfið. Það skiptir því miklu fyrir þær að finna leiðir til að auka skilvirkni, færni og afkastagetu og stuðla jafnframt að sem mestum gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Könberg er ætlað að skoða hvernig þessum markmiðum verði best náð með verkaskiptingu, samhæfingu og sameiginlegum lausnum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir engan vafa leika á því að Norðurlandaþjóðirnar geti haft mikinn ávinning af auknu samstarfi sín á milli og að þær áskoranir sem þjóðirnar standi frammi fyrir á sviði heilbrigðismála kalli beinlínis á aukna samvinnu:  „Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert. Þörf fyrir umræðu, nýja sýn og nýja nálgun er óhjákvæmileg og snýst um framtíð heilbrigðisþjónustu víða um lönd.“

Samstarf á sviði lyfjamála

Á fundinum með Bo Könberg í dag ræddi Kristján Þór meðal annars um ört vaxandi kostnað heilbrigðiskerfisins vegna nýrra og sérhæfðra lyfja þar sem meðferð fyrir einstaka sjúklinga getur hlaupið á tugum milljóna króna á ári. Kristján Þór telur æskilegt að Norðurlandaþjóðirnar skoði hvort bregðast megi við þessari þróun með auknu samstarfi á sviði lyfjamála, til dæmis með sameiginlegum innkaupum. Hann sagði einnig mikilvægt fyrir Norðurlandaþjóðirnar að geta byggt samstarf sitt og ákvarðanir á vandaðri og samanburðarhæfri heilbrigðistölfræði og lagði loks áherslu á áhuga Íslands á vestnorrænu samstarfi.

Könberg segir að í skýrslu hans fyrir Norrænu ráðherranefndina verði lagðar fram skýrar ábendingar og tillögur um samstarf þjóðanna í heilbrigðismálum. Skýrslan verður lögð fram á fundi norrænna félags- og heilbrigðismálaráðherra sem haldinn verður á Íslandi í júní í sumar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta