Óskað eftir tillögum að handhöfum umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs
Norðurlandaráð auglýsir eftir tillögum að handhöfum náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014. Í ár verða verðlaunin veitt sveitarfélagi, bæjarfélagi eða nærsamfélagi sem hefur með samstilltu átaki lagt sitt af mörkum fyrir umhverfið í heild eða stuðlað að úrbótum varðandi afmarkað umhverfismál.
Fresturinn til að senda inn tillögur rennur út þann 23. apríl og verður listi yfir tilnefnda opinberaður þann 12. júní næstkomandi. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á þingi Norðurlandaráðs í lok október í Stokkhólmi þar sem verðlaunin verða afhent. Nemur verðlaunaféð 350 þúsund dönskum krónum, eða tæpum 7,3 milljónum íslenskra króna.
Hægt er að senda inn tillögur að verðlaunahöfum með því að fylla út þar til gert eyðublað á heimasíðu Norðurlandaráðs.