Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur að nafni nýrrar stofnunar um jafnréttismál

Borgarar
Borgarar

Tólf umsagnir bárust velferðarráðuneytinu um þrjú lagafrumvörp tengd jafnréttismálum sem lögð verða fyrir Alþingi á næstunni. Samhliða var óskað eftir tillögum um nafn á nýrri stofnun sem fyrirhugað er að koma á fót og mun fjalla um jafnréttismál í víðum skilningi. Mannréttindastofa er það nafn sem flestir kjósa.

Frumvörpin sem lögð voru fram til umsagnar fjalla um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, um jafna meðferð á vinnumarkaði og um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála. Gert er ráð fyrir að ein stofnun annist stjórnsýslu jafnréttismála sem taki til jafnréttis kynjanna sem og jafnrar meðferðar óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund.

Áhugasömum um nafn á nýrri stofnun gafst kostur á greiða atkvæði með þremur nöfnum sem ýmsir hafa nefnt sem mögulega kosti, þ.e. Jafnréttisstofnun, Umboðsmaður jafnréttismála og Mannréttindastofa, eða að koma með tillögur frá eigin brjósti. Alls mæltu 58 með Mannréttindastofu, 34 með Jafnréttisstofnun og 6 með Umboðsmanni jafnréttismála.

Einstakar tillögur um nafn á nýrri stofnun

Nærri tuttugu tillögur bárust um önnur nöfn en áður var getið, sumar nokkuð hefðbundnar, aðrar einstakar og fáeinar gráglettnar.

Tveir lögðu til nafnið Blær með vísan til stúlkunnar sem þurfti að leita til dómstóla til að fá úr því skorið að hún mætti heita þessu nafni. Af öðrum tillögum má nefna nöfnin; Jafna eða Jafnan, Jafnréttisstofa eða Jafnréttisstofa Íslands, Jafnaðarstofa, Jafnréttiseftirlitið, Jafnræðisstofa, Mannhelgi – stofnun um jafnréttismál, Mannhelgisstofa, Mannhelgisstofnun, Réttindaver, Réttindastofa, Skrifstofa jafnréttismála, Stofnun Bríetar Bjarnhéðinsdóttur um mannréttindi á Íslandi, Umboðsmaður mannhelgi og Velferðarstofa. Þessu til viðbótar var stungið upp á nöfnunum Kerlingasetur og Forréttindi kvenna og fá þau að fylgja hér með svo öllum tillögum sé til skila haldið, þótt þau séu ekki í anda jafnréttis og virðingar fyrir mannréttindum.

Á næstu dögum verður farið yfir þær umsagnir sem bárust um frumvörpin þrjú en félags- og húsnæðismálaráðherra stefnir að því að leggja þau fyrir Alþingi fljótlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta