Hoppa yfir valmynd
7. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Bráðadagur Landspítala: Þegar á reynir

Bráðadagurinn 2014 - Ráðstefnugestir
Bráðadagurinn 2014 - Ráðstefnugestir

„Þróun heilbrigðisþjónustunnar gerir vaxandi kröfur til sjúkraflutninga eftir því sem sérhæfing eykst og hlutverk heilbrigðisstofnana breytist víða um land,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í ávarpi á ráðstefnu Landspítala um bráðaþjónustu sem haldin var í dag.

Að þessu sinni snérist þema Bráðadagsins 2014 ekki fyrst og fremst um starfsemi bráðasviðs Landspítala, heldur var sjónum einnig beint að samvinnu, þjónustu utan sjúkrahússins og flutningi sjúklinga. Dagskrá ráðstefnu í tilefni dagsins var fjölbreytt og í fylgiriti með Læknablaðinu sem aðgengilegt er á vefnum eru birt ágrip erinda sem þar voru flutt.

Um 100.000 bráðar komur sjúklinga á ári

Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, lektor og verkefnastjóri rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum fylgir riti Læknablaðsins um Bráðadaginn úr hlaði með ávarpi og segir þar meðal annars: „Á strjálbýlu landi eins og Íslandi getur verið langt í lífsnauðsynlega sérfræðiþjónustu þegar slys eða alvarleg veikindi koma upp. Flutningar bráðveikra og slasaðra eru því mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsins. Lögum samkvæmt eiga allir landsmenn að eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Í aðstæðum þar sem nauðsyn krefur meðferðar sjúklinga sem einungis er að finna á sérhæfðum sjúkrahúsum getur þurft að viðhafa sjúkraflutninga um langan veg, ýmist á landi eða í lofti. Samkvæmt skilgreiningu er sérhæfð sjúkrahús aðeins í Reykjavík og á Akureyri. Landspítalinn, aðalsjúkrahús landsins, tekur á móti um 100.000 bráðum komum sjúklinga á ári, sjúklinga hvaðanæva af landinu. Starfsemi sérhæfðu sjúkrahúsanna snertir alla landsmenn og efalaust hagsmunamál landsmanna að aðkoma þangað sé greið og þar sé ávallt hágæðaþjónusta í boði.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í ávarpi sínu að í ljósi þess hve sjúkraflutningar skipta miklu máli þurfi engan að undra þótt stundum sé hart tekist á um fyrirkomulag þessara mála og áform um breytingar því líkleg til að mæta andstöðu. „Öryggi þessarar þjónustu skiptir öllu máli og því er skiljanlegt að fólk láti í sér heyra telji það að öryggi verði á einhvern hátt skert með breyttu skipulagi,“ sagði ráðherra meðal annars og vísaði þar til áforma forvera síns í velferðarráðuneytinu um fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni sem taka átti gildi í byrjun þessa árs en eru nú til endurskoðunar í ráðuneytinu: „Ég útiloka alls ekki að breytingar verði gerðar – en þær þarfnast meiri undirbúnings“ sagði Kristján Þór heilbrigðisráðherra.

Engar grundvallarbreytingar fyrirsjáanlegar

Kristján ræddi um fyrirkomulag sjúkraflugs og vísaði í því sambandi til skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um sjúkraflug á Íslandi frá síðasta ári þar sem m.a. er fjallað um reynsluna af miðstöð sjúkraflutninga á Akureyri frá árinu 2007 og rekstur sjúkraflugs á hendi eins rekstraraðila, en þannig hefur skipulagið verið frá árinu 2010: „Að mati Ríkisendurskoðunar leiddu þær breytingar sem gerðar voru árið 2010 til verulegra umbóta á aðbúnaði og öryggi sjúklinga sem og aðstöðu lækna, sjúkraflutningamanna og aðstandenda“ sagði Kristján Þór sem segist ekki sjá fyrir sér að neinar grundvallarbreytingar verði gerðar á fyrirkomulagi sjúkraflugs á  næstu árum.

Pálmi Óskarsson, forstöðulæknir slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri hélt erindi þar sem hann fjallaði um miðstöð sjúkraflugs á Akureyri. Fram kom að sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað verulega á síðustu tíu árum. Árið 2004 voru þau um 300 en síðastliðin fimm ár hafa þau verið um 460 á ári að meðaltali.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta