Styður alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings Úkraínu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í gær og í dag þátt í utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visagrad-ríkjanna, Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands. Málefni Úkraínu, öryggis- og varnarmál, orkumál og samgöngumál voru aðalumfjöllunarefni fundarins.
Gunnar Bragi segir áríðandi að diplómatískar leiðir finnist til að miðla málum í Úkraínu og fagnar því að samtöl hafi átt sér stað milli evrópskra, bandarískra og rússneskra ráðamanna síðustu daga. "Það vekur ugg að rússnesk stjórnvöld skuli hegða sér með þessum hætti. Friður og öryggi í stórum hluta Evrópu er í húfi. Þaðhefur komið skýrt fram á þessum fundi að vinir okkar í Eystrasaltsríkjunum og Mið-Evrópu telja þróunina mjög hættulega og þeir óttast um öryggi sinna ríkja. Þetta eru okkar bandalagsríki innan Atlantshafsbandalagsins og við tökum áhyggjur þeirra mjög alvarlega. Ég vona svo sannarlega að hægt verði að ná sáttum þar sem hagsmunir allra íbúa Úkraínu séu virtir og alþjóðalögum framfylgt," segir Gunnar Bragi.
Ráðherrarnir fjölluðu um þær aðgerðir til stuðnings úkraínskum stjórnvöldum sem Evrópusambandið ákvað í gær að grípa til. "Ég hef talið afar brýnt að alþjóðasamfélagið bregðist við framferði Rússa og því styð ég þau skref sem Evrópusambandið hefur tekið. Aðgerðirnar varða meðal annars slit á viðræðum um tilslakanir á vegabréfaáritunum og um gerð nýs samstarfssamnings ESB og Rússlands," segir Gunnar Bragi.
Á fundinum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu þar sem fjallað er um hina erfiðu stöðu í Úkraínu. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að ráðherrarnir fordæmi brot Rússlands á friðhelgi landamæra Úkraínu og hvetji rússnesk stjórnvöld til að draga herlið sitt til baka til bækistöðva sinna. Ráðherrarnir fordæma aðgerðir sem hafa aukið á vandann í Úkraínu og segja að ákvörðun um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímsskaga um aðild að Rússlandi brjóti í bága við stjórnarskrá Úkraínu og sé því óásættanleg. Ráðherrarnir lýsa vilja til að styðja úkraínsk stjórnvöld og hvetja til umbóta á grundvelli jafnræðis, lýðræðisþróunar og virðingar fyrir mannréttindum, réttarríkinu og réttindum minnihlutahópa. Þá fagna ráðherrarnir í yfirlýsingu sinni eftirlitssveit Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Úkraínu. Íslenskur fulltrúi tekur þátt í störfum þeirrar sveitar.
Í umræðu um öryggis- og varnarmál undirstrikaði Gunnar Bragi mikilvægi Atlantshafsbandalagsins enda sé náið samstarf ríkjanna við Norður-Atlantshaf grundvöllur öryggis í okkar heimshluta. Hann hvatti til þess að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og ESB ríkin leiti sveigjanlegra leiða til að efla samstarf sitt á þessu sviði. Vísaði hann til nýlegrar þátttöku Svía og Finna í loftrýmiseftirliti á Íslandi í því sambandi. Þá sagði hann að stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins hafi hingað til verið árangursríkt og sagði samstarf bandalagsins við ríki utan þess skila miklu fyrir gagnkvæma hagsmuni.
Yfirlýsing ráðherrafundarins um Úkraínu