Fyrsta styrkverkefnið um orkuskipti í skipum orðið að vöru
Úthlutað var síðastliðið sumar á vegum innanríkisráðuneytis, Samgöngustofu og Vegagerðar styrkjum til orkuskipta í skipum í gegnum verkefnið græna hagkerfið. Meðal verkefna sem hlutu styrk var verkefni Véltaks hf. en það laut að lokafasa í þróun smurolíuskilju sem dregið gæti verulega úr notkun smurolíu í íslenska skipaflotanum auk þess að skila auknum umhverfisgæðum.
Verkefninu er nú lokið og er smurolíuskiljan OGS-2, sem stendur fyrir „Oil Gas Separation, orðin að vöru. Í prófunum hefur sýnt sig að búnaðurinn getur sparað 70-80% af smurolíunotkun skipa með því að koma í veg fyrir að olían smitist út í vélarrúm skips. Þannig næst miklu betri nýting í stað þess að hún dreifist út í umhverfið. Að auki hreinsar smurolíusían smurolíugufu úr vinnuumhverfi vélstjóra.
Að baki smurolíuskiljunni eru hugvit og hönnun sem hafa jákvæð áhrif fyrir umhverfið en með búnaðinum næst mun betri nýting á smurolíu á skipsvélum sem getur sparað milljónir króna í kaupum á smurolíu. Þá kemur búnaðurinn í veg fyrir hættulegt og heilsuspillandi olíusmit. Með Véltaki unnu starfsmenn Raftíðni að hönnun og framleiðslu smurolíuskiljunnar.
Smurolíuskiljan er nú tilbúin til framleiðslu og er það von úthlutunarnefndar að hún verði staðalbúnaður í íslenskum skipum í náinni framtíð.
Á myndinni eru frá hægri Jón Bernódusson, Gylfi Árnason og Guðbjartur Einarsson. Auk þeirra voru í úthlutunarnefnd þau Ásta Þorleifsdóttir innanríkisráðuneyti og Guðmundur Helgason hjá Vegagerðinni.