Umsóknir vegna verkefna í Sýrlandi, Namibíu og Mið-Afríkulýðveldinu
Utanríkisráðuneytið óskar eftir umsóknum frjálsra félagasamtaka um framlög til neyðar- og mannúðaraðstoðar í Sýrlandi, Namibíu og Mið-Afríkulýðveldinu. Frestur til að sækja um rennur út 15. mars nk..
Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til félagasamtaka tvisvar á ári samkvæmt verklagsreglum um samstarf utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við frjáls félagasamtök sem starfa að þróunarsamvinnu, mannúðarstörfum og neyðaraðstoð á alþjóðavettvangi. Á fjárlögum ársins 2014 er gert ráð fyrir 248 milljóna króna framlagi til slíkra verkefna en þar af er áætlað að ráðstafa allt að 70 milljónum kr. til ofangreindrar aðstoðar.
1. Þörf fyrir neyðaraðstoð í Sýrlandi og nágrannalöndum er ein sú mesta sem um getur. Fjöldi sýrlenskra flóttamanna er um það bil 2,5 milljónir. Auk þess hafa um 440 þúsund palestínskir flóttamenn frá Sýrlandi þurft að leita á náðir Flóttamannahjálpar Palestínumanna (UNRWA).
2. Í Namibíu ríkir neyð vegna mestu þurrka í 30 ár sem hamla uppskeru og hafa leitt til langvinns fæðuskorts og þarfar fyrir matvælaaðstoð.
3. Í Mið-Afríkulýðveldinu (CAR) hafa hundruð þúsunda íbúa flosnað upp frá heimilum sínum vegna grimmilegra átaka.
Umsóknir skal senda á netfangið: [email protected] fyrir miðnætti 15. mars nk. Umsóknareyðublöð má finna á vef ráðuneytisins ásamt verklagsreglum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem kveða á um skilyrði fyrir styrkveitingum og viðmið við mat umsókna.
Styrkveitendur áskilja sér rétt til að kalla eftir viðbótargögnum ef þörf krefur.
Nánari upplýsingar veitir Svanhvít Aðalsteinsdóttir í síma 545 7435, netfang: [email protected]