Betri heilbrigðisþjónusta kynnt á fundi með sjúklingafélögum
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og verkefnisstjórn um Betri heilbrigðisþjónustu stóðu fyrir fundi í Norræna húsinu í dag þar sem fulltrúum sjúklinga- og aðstandendafélaga voru kynntar kerfisbreytingar og úrbætur sem unnið er að á sviði heilbrigðisþjónustu.
Verkefnin sem um ræðir eiga rætur í umfangsmikilli greiningarvinnu á styrkleikum og veikleikum íslenska heilbrigðiskerfisins sem unnin var á vegum velferðarráðuneytisins á árunum 2011-2012 með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis og aðkomu hátt í 100 sérfræðinga sem starfa á ýmsum sviðum íslenska heilbrigðiskerfisins.
Kristján Þór hóf fundinn með ávarpi þar sem hann gerði grein fyrir ákvörðun sinni um að ráðast í þau verkefni sem nú eru hafin undir merkjum Betri heilbrigðisþjónustu. Hann vísaði til þess að þótt íslensk heilbrigðisþjónusta komi jafnan vel út í alþjóðlegum samanburði sýni greiningarvinna sérfræðinga að margt megi bæta og ýmsu þurfi að breyta til að samhæfa betur þjónustu við notendur, draga úr sóun og auka skilvirkni. Hann sagði mörg þessara verkefna kunnugleg flestum þar sem þau hefðu verið til umræðu og jafnvel í vinnslu um árabil en hins vegar hefði vinnunni miðað of hægt. Þess vegna hefði hann ákveðið að setja verkefnin sem um ræðir í formlegri farveg þar sem þau eru unnin í samhengi hvert við annað eftir skýru verklagi og með góðri yfirsýn.
Undir Betri heilbrigðisþjónustu falla eftirtalin verkefni:
- Þjónustustýring – innleiðing á landsvísu.
- Sameining heilbrigðisstofnana.
- Endurskoðun á greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni.
- Sameiginleg símaráðgjöf fyrir heilbrigðisþjónustuna um allt land ásamt gagnvirkri vefsíðu.
- Innleiðing á ávísun hreyfiseðla sem meðferðarform.
- Samtengd rafræn sjúkraskrá.
- Breyttar aðferðir við fjármögnun heilbrigðiskerfisins.
Á fundinum voru verkefnin kynnt hvert um sig en ráðherra vék í upphafsávarpi sínu sérstaklega að innleiðingu þjónustustýringar og sagði meðal annars: „Við eigum þá vafasömu sérstöðu meðal nágrannaþjóða að beita lítið sem ekkert markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. Þessu fylgja margvíslegir annmarkar. Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Þetta vitum við og höfum vitað lengi. Nú verður þetta gert og komið á fót virkri þjónustustýringu þar sem heilsugæslan gegnir lykilhlutverki og sér til þess að þeir sem þangað leita fái skjóta, góða og samhæfða þjónustu og trausta leiðsögn um heilbrigðiskerfið þegar önnur úrræði en heilsugæslan ræður yfir eru nauðsynleg.“
Mælikvarði á skipulag, öryggi og gæði
Við skulum halda því sem vel er gert og styðja við góðan árangur en okkur ber líka skylda til að bæta úr augljósum ágöllum sagði Kristján Þór einnig í ávarpi sínu: „Það er mikilvægt að skoða málin út frá heilbrigðiskerfinu sjálfu og innra skipulagi þess – en ekki síður út frá því hvernig kerfið skilar hlutverki sínu og þjónar notendum sem allt á auðvitað að snúast um. Notendurnir og hvernig þeim vegnar er mælikvarðinn á skipulag, öryggi og gæði þjónustunnar“ sagði ráðherra að lokum.
- Glærur með kynningu á einstökum verkefnum
- Vefsvæði með upplýsingum um verkefnið; Betri heilbrigðisþjónustu