Reglugerð um umhverfismerkið Blómið
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gert breytingu á reglugerð um umhverfismerki. Með breytingunni er innleidd reglugerð Evrópusambandsins (ESB) um evrópska umhverfismerkið Blómið, þar sem m.a. er kveðið á um þær kröfur sem viðmið umhverfismerkisins eiga að uppfylla, hvaða reglur gilda um það, skilyrði fyrir notkun þess og gjaldtöku.
Blómið er opinbert umhverfismerki ESB sem auðveldar neytendum val á visthæfum vörum. Í dag skipta vörutegundir merktar Blóminu þúsundum og stöðugt bætast fleiri vöruflokkar við. Reynt hefur verið að haga viðmiðum vegna Blómsins þannig að þau nýtist m.a. við opinber innkaup.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með Blóminu hér á landi og veitir leyfi til notkunar þess, vegna vöru og þjónustu sem uppfyllir viðmiðunarreglur um notkun merkisins. Þá sinnir stofnunin eftirliti með því að vörur sem vottaðar hafa verið með Blóminu uppfylli skilyrði umhverfismerkisins.
Reglugerð ESB fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er innleidd í íslenskan rétt á grundvelli hans.
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki.
Reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki.