Tvöhundruð og fimmtíu sjálfboðaliðar
Íslenska utanríkisþjónustan er ekki stór, enda kannski eðlilegt að svo sé ekki því við erum lítil þjóð. Við rekum tuttugu og tvær sendiskrifstofur erlendis, en til samanburðar má nefna að Finnar reka níutíu og þrjár. Útsendir starfsmenn okkar eru fimmtíu og fjórir en þeirra fimmhundruð og sjötíu.
Hlutverk sendiskrifstofa er í flestum ríkjum það sama, þ.e. að gæta hagsmuna í erlendum ríkjum og gagnvart alþjóðastofnunum. Stöðug umræða er í Finnlandi, eins og á Íslandi, um það hvort fækka megi sendiráðum, draga úr kostnaði og sinna framangreindu hlutverki með einhverjum öðrum hætti á tímum tækniundra og rafrænna möguleika í samskiptum. Hér í Finnlandi, eins og hjá okkur, eru reglulega gerðar einhverjar breytingar, sendiskrifstofur lagðar niður og aðrar opnaðar eftir því hvernig megin-hagsmunir eru skilgreindir á hverjum tíma.
Íslenska utanríkisþjónustan hefur sett öryggi Íslendinga á oddinn. Borgaraþjónustan virkar, hvar í heiminum sem fólk er statt og ef eitthvað bjátar á. Þetta er forgangsmál auk þess sem auðvitað skal sinna hefðbundnum hlutverkum, þ.e. almennum og sértækum stjórnarerindrekstri (sem á erlendri tungu kallast diplómatía) sem felst í því að reka erindi íslenskra stjórnvalda, vinna að framgangi hagsmuna og verkefna sem til þess eru fallin að auka orðstír Íslands, m.a. á sviði menningarkynninga og sóknar á erlenda markaði.
Það gleymist oft í umræðunni að auk launaðra starfsmanna eru í þjónustu Íslands tæplega tvöhundruð og fimmtíu ræðismenn sem vinna óeigingjarnt starf í okkar þágu, bregðast við á öllum tímum sólarhrings, alla daga ársins og ganga í störfin þegar upp koma mál sem þarf að sinna snarlega.
Ræðismennirnir eru hinn framlengdi armur Íslands á staðnum, í stöðugt fleiri ríkjum. Oftar en ekki eru ræðismennirnir ríkisborgarar í viðkomandi ríkjum. Hjá utanríkisráðuneytinu er símavakt allan sólarhringinn sem sinnir málum Íslendinga í vanda erlendis. Og frá henni er beint samband við sendiráðin og ræðismennina, og öfugt. Íslendingar koma orðið víða við, ferðast, læra og starfa um allan heim. Á sumum heimssvæðum og í ríkjum þar sem stjórnarfar er ólíkt okkar gegna ræðismennirnir lykilhlutverki, kunna að feta einstigi stjórnkerfis, opna dyr, tala við rétta aðila, gera ráðstafanir.
Því kynntist ég vel í Asíu þegar Íslendingar lentu í margvíslegum áföllum sem erfitt reyndist fyrir sendiráðið í Peking, með ábyrgð á 10 ríkjum í Asíu og Eyjaálfu, að vinna úr án staðarþekkingar og tengsla. Sama gildir um borgaraþjónustu í umdæmi sendiráðins í Helsinki, í Eystrasaltsríkjunum þremur og Úkraínu auk Finnlands. Það væri óvinnandi vegur að bregðast við þeim málum sem upp koma, týndum vegabréfum, slysum, ólánsaðstæðum og jafnvel dauðsföllum, ef ekki væri fyrir aðstoð og milligöngu ræðismanna Íslands á staðnum. Framlag þeirra er ómetanlegt.
Utanríkisþjónustan hefur á tímum niðurskurðar lagt mikið upp úr því að þétta öryggisnetið með fleiri og öflugri ræðismönnum sem víðast um heiminn. Í flestum tilfellum er um að ræða vel tengt fólk með mikla reynslu og aðstæður til þess að sinna starfi í þágu annars lands ef og þegar á því þarf að halda. Fólk sem er reiðubúið til þess að bera samfélagslega ábyrgð eins og nú er svo oft talað um á viðskiptamáli.
Að vera skipaður ræðismaður er reyndar viðurkenning, og í sumum samfélögum talin nokkur upphefð. Á undanförnum árum hefur það líka verið stefnumál að fjölga konum í hópi ræðismanna og þannig er stefnt að jöfnum kynjahlutföllum í þessum hópi eins og í öðrum verkefnum á vegum utanríkisþjónustunnar. Halda ber því til haga sem vel er gert og það er sannarlega tilefni til að meta og þakka framlag þess stóra hóps sjálfboðaliða sem bera merki Íslands hátt sem ræðismenn í hinum ólíku ríkjum heimsins.